Dagur B. Eggertsson þingmaður Samfylkingarinnar segist fagna umræðunni um nauðsyn þess að vera með tvo alþjóðaflugvelli á suðvesturhorninu, út frá hagsmunum flugsins og vegna öryggissjónarmiða.
Morgunblaðið og mbl.is greindu frá því að Þorgeir Pálsson fyrrverandi flugvallarstjóri sagði ónákvæmni gæta í orðum Dags um Reykjavíkurflugvöll, og að Njáll Trausti Friðbertsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins tæki í sama streng.
„Hann gagnrýnir mig fyrst og fremst fyrir að tala um nýjan völl sem varaflugvöll án þess að taka fram að hann yrði einnig aðalflugvöllur innanlandsflugsins, sjúkraflugsins og hvers konar leigu- og almannaflugs, eins og hann kemst að orði. Ég get einnig tekið algjörlega undir þetta með Þorgeiri. Að sjálfsögðu er skynsamlegt að nýr varaflugvöllur, sem er nauðsynlegur, yrði jafnframt miðstöð innanlandsflugs og annars flugs, sem ekki er í Keflavík,“ segir Dagur í skriflegu svari við gagnrýni Þorgeirs.
Dagur tekur undir orð Þorgeirs um að vegna öryggis samfélagsins þyrftu tveir alþjóðlegir flugvellir að vera á suðvesturhorni landsins til að öll eggin séu ekki í sömu körfu, þess vegna hafi hann rætt þessi mál í tengslum við varnarmál og nauðsynlega innviði í öryggiskerfinu. Nýr flugvöllur, sem tæki við hlutverki Reykjavíkurflugvallar, væri til mikilla hagsbóta fyrir flug til landsins – þar sem núverandi Reykjavíkurflugvöllur væri háður takmörkunum og flugbrautir hans væru of stuttar.
Kjarna málsins segir hann vera að trassað hafi verið að byggja upp innviði Íslands og bregðast við skýrum tillögum um úrbætur í öryggisinnviðum, „eins og skýrsla Þorgeirs frá 2017 er gott en alls ekki eina dæmið um. Við þurfum að bæta úr því.“
Segir hann samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hafa skilgreint þær lágmarkskröfur sem varaflugvöllur á suðvesturhorninu þyrfti að uppfylla árið 2019. Það séu tvær misvísandi brautir, að lágmarki 45 m breiðar og 2.100 m langar. Völlurinn verði að geta tekið við minnst 20 stórum flugvélum þegar mikið liggi við.
„Núverandi Reykjavíkurflugvöllur mætir alls ekki þessum kröfum,“ segir Dagur og vísar í skýrslu innviðaráðuneytisins frá 2024, þar sem vísað er til sömu lágmarksstærðar en jafnframt sagt að til framtíðar þurfi jafnvel að reikna með enn lengri flugbrautum á varaflugvelli fyrir Keflavíkurflugvöll, eða 2.700-3.000 m. langar, og allt að 900 m löngu svæði til viðbótar fyrir aðflugsbúnað. Þessum kröfum er Reykjavíkurflugvöllur fjarri því að mæta og aðalbraut vallarins og sú lengri er 1.570 m löng.“
„Hingað til höfum við rætt þessi varaflugvallarmál vegna stóraukinnar umferðar í alþjóðaflugi um Keflavíkurflugvöll, til að flugvélar geti lent vegna atvika eða slysa á þeim velli, svo sem röskunar á umferð um Reykjanesbraut vegna snjóveðurs eða hraunrennslis. Það hefur ekki vantað rökin fyrir því að nýr varaflugvöllur sé brýn nauðsyn,“ segir Dagur.
Nú bætist þó við að hugsa þurfi fyrir slíkum öryggisinnviðum vegna varnarhagsmuna og þess vonandi fjarlæga möguleika að ófriðartímar séu í aðsigi.
„Fjölmarga aðra innviði þarf auðvitað að ræða og bæta af sömu ástæðum, eins og ég og fleiri höfum bent á. Í öllum tilvikum er mikilvægt að fara ekki beint í einhverjar skotgrafir gamalla deilumála heldur horfast í augu við að bæta þarf úr. Þar held ég að við Þorgeir Pálsson sem ekki aðeins sammála heldur samherjar, þegar flugvallarmál eru annars vegar. Og það ætti flugsamfélagið allt raunar að vera. Alþjóðaflug eru þjóðarhagsmunir okkar Íslendinga.“
Að sögn Dags eru útflutningstekjur Íslendinga vegna ferðaþjónustu 621 milljarður króna á ári, þriðjungur útflutningstekna landsins í heild. Fjöldi annarra atvinnugreina og almenningur reiða sig þannig á ört og öruggt alþjóðaflug. Því er það ábyrgðarhluti að gera ekki ráðstafanir til að tryggja að hægt sé að flytja flugstarfsemi og alþjóðaflug á varaflugvöll ef aðstæður í umheiminum breytast eða flugumferð um Keflavíkurflugvöll verður takmörkuð af einhverjum ástæðum.
„Það mun kosta, en viku stopp í Keflavík kostar 12 milljarða tap í útflutningstekjum, mánuður kostar 52 milljarða og hálft ár 310 milljarða, og þá er bara ferðaþjónustan talin, ekki aðrir hagsmunir sem eru ekki síður háar tölur.“