Fullur skilningur á stöðu Íslands

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra.
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra. mbl.is/Karítas

„Það hefur auðvitað gríðarleg áhrif á okkar upphæðir og okkar prósentur að við erum ekki með her,“ segir Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra.

Donald Trump Bandaríkjaforseti er sagður íhuga stefnubreytingu í varnarsamstarfi við önnur ríki Atlantshafsbandalagsins sem felur í sér að Bandaríkin kæmu mögulega ekki til varn­ar öðru ríki, verji það ekki þegar 2% af lands­fram­leiðslu til varn­ar­mála. Ísland ver 0,14% til varn­ar­mála.

„Mjög stór hluti af þessum upphæðum erlendis fer í gegnum herinn hjá þeim löndum og það er fullur skilningur á því hjá öðrum ríkjum Atlantshafsbandalagsins að Ísland er í sérstakri stöðu hvað þetta varðar,“ segir Kristrún.

Þá tekur hún fram að Íslendingar veiti alls konar þjónustu og aðstöðu sem erfitt sé að meta til fjár.

„Með því að bjóða upp á öryggissvæði í Keflavík. Með því að bjóða upp á aðstöðu til að vera í loftrýmisgæslu. Aðstöðu fyrir kafbátana svo þeir geti farið hérna í eftirliti og svo framvegis. Við höfum frá upphafi, frá því að við gerðumst stofnaðili að Atlantshafsbandalaginu, átt annars konar samning við sambandið og það er meðvitund um það.“ 

Höfum stigið sterkar inn

Kristrún segir þó að það breyti því ekki að Íslendingar hafi hlutverki að gegna þegar kemur að ákveðnum þáttum.

„Þess vegna höfum við verið að stíga sterkar inn þegar kemur að framlögum til Úkraínu, til að styðja til dæmis við Norðurlandaþjóðirnar og þeirra verkefni og líka Eystrarsaltslöndin. Og síðan þurfum við að hugsa núna alvarlega um, og það er ríkisstjórnin að gera, hvernig við getum styrkt þá þá þætti sem skipta mestu máli fyrir varnargetu Íslands.“

Hvernig breytingin hafi áhrif á Ísland og aðra

Kristrún átti í gær fjarfund með Antonío Costa, forseta leiðtogaráðs Evrópusambandsins (ESB), Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, og Kaju Kallas, utanríkismálastjóra ESB, ásamt forsætisráðherrum Noregs, Bretlands, Kanada og forseta Tyrklands.

„Þessi fundur var fyrst og fremst upplýsingafundur til að fara yfir það sem rætt var í gær á fundi Evrópusambandsríkjanna um þessa aukningu í varnargetu Evrópusambandsins.“

Ursula von der Leyen greindi í vikunni frá því að ESB ætlaði að auka framlög til varnarmála um 800 milljarð evra á næstu fjórum árum svo aðildarríkin geti vígvæðst á nýjan leik. 

Kristrún segir ákvörðunina vera sögulega. Hún segir umræður á fundinum í dag m.a. hafa snúist um hvernig þessi stefnubreyting hafi áhrif á Ísland og þau ríki sem áttu fulltrúa á fundinum.

„Öll þau viðbótarlönd sem voru á fundinum í dag eru NATO-þjóðir. Það kom skýrt fram í málflutningi forsvarsmanna Evrópusambandsins að það er verið að horfa á þessa auknu varnargetu sem getu sem nýtist inn í Evrópu.“

Ekki hluti af þessari „varnarmálaaukningu“

Kristrún segir það hafa komið skýrt fram í málflutningi forsvarsmanna Evrópusambandsins að þessi auknavarnargeta eigi að styrkja samhæfingu Evrópuríkja innan NATO.

„Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að heyra það vegna þess að við auðvitað byggjum okkar varnir og öryggismál að miklu leyti á þátttöku okkar innan Atlantshafsbandalagsins. Þrátt fyrir að víð séum að sjá Evrópu stíga upp og þétta raðirnar, hvað varðar sitt eigið öryggissamstarf, að þá er það ekki gert án NATO eða án Bandaríkjanna, heldur til þess að styrkja það samstarf og það skiptir máli.“

Hvert er hlutverk í Íslands í þessu öllu saman? Erum við að fara að gera einhverjar breytingar hjá okkur? Erum við að fara að verja frekari fjármunum í varnarmál?

„Ísland mun ekki hafa beina þátttöku í þessari sértæku varnarmálaaukningu. Ísland er hins vegar virkur aðili að NATO og við höfum ákveðnum skyldum að gegna þar. Það skiptir máli fyrir okkur að heyra að NATO verði áfram meginvettvangur varna á svæðinu. Þetta auðvitað ýtir líka við okkur að tryggja það að styrkja okkar getu hérna. Ég hef talað fyrir því og líka utanríkisráðherra að við þurfum að sjá betur um uppbyggingu á öryggissvæðinu Keflavík og stöðina þar, við þurfum að styrkja landhelgisgæsluna og borgaralegaþætti eins og lögregluna.“

Hún segir einnig þörf á að ræða almennt um nýtingu fjármagns í varnarmál.

„Og að sú nýting, þvert á Evrópu, yfir til Íslands og Bandaríkjanna, sé samhæfð. Þess vegna skipta svona fundir máli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert