Kristín Siggeirsdóttir, framkvæmdastjóri Janusar endurhæfingar, segir samtöl við stjórnvöld „því miður“ ekki hafa átt sér stað, eftir tilkynningu fyrirtækisins sem birtist í vikunni um skort á fjármagni til geðendurhæfingar ungs fólks.
Janus endurhæfing þarf að leggja niður sérhæft endurhæfingaúrræði fyrir 18 ára og eldri, þann 1. júní næstkomandi, vegna skorts á fjármagni.
Í samtali við mbl.is segir Kristín þörfina á slíku úrræði mikla og foreldrar og aðstandendur hafi haft samband við starfsmenn Janusar, í öngum sínum vegna ungs fólks í vanda. Tugir þeirra eru á biðlista inn í úrræðið.
„Aðstandendur ákváðu að eigin frumkvæði að stofna Félag aðstandenda,“ segir Kristín, spurð fregna frá fundi með aðstandendum sem átti sér stað í vikunni.
Nauðsynlegt áframhaldandi fjármagn fæst ekki til að veita ungu, jaðarsettu og viðkvæmu fólki, með fjölþætt geðræn vandamál, heildræna, einstaklingsmiðaða og þverfaglega geðendurhæfingu, og hefur öllu starfsfólki úrræðisins verið sagt upp.
Hópi fólks sem náð hefur 18 ára aldri og oftar en ekki haft viðkomu á barna og unglingageðdeild Landspítala (BUGL) eða öðrum stöðum í kerfinu. Mörg eru þau með langa sögu um geðræna erfiðleika, eru með taugaþroskaröskun, hafa jafnvel verið þolendur eineltis í skóla eða bera með sér margvíslega áfallasögu.
Um árabil hefur þessi hópur fólks fengið endurhæfingu innan Janusar sem skilað hefur góðum árangri. Yfir 56% af útskrifuðum, samtals 82 einstaklingar, hafa náð árangri á síðustu þremur árum, komist í vinnu, nám, eða hafið virka, sannanlega atvinnuleit.
Um er að ræða eina stærstu sérhönnuðu geðendurhæfingu landsins utan stofnana, þar sem geðlæknir er í forsvari þverfaglegs teymis.
Hvað tekur við fyrir þetta unga fólk?
„Okkur hefur verið tjáð að verið sé að styrkja Hringsjá náms- og starfsendurhæfingu. Við fögnum því sannarlega enda er þörf fyrir fjölbreytt vönduð úrræði.“
Hvernig fór fundurinn með aðstandendum?
„Aðstandendafundurinn var haldinn í framhaldi af samtölum við unga fólkið okkar. Tilefni hans var að bjóða aðstandendum tækifæri til að fá upplýsingar varðandi það hvernig Janus endurhæfing ætlar að tryggja eins gott utanumhald utan um þau eins og unnt er þangað til úrræðinu verður lokað. Hjálpa og styðja til við flutning í önnur úrræði sem á að bjóða upp á.
Aðstandendur ákváðu þá að eigin frumkvæði að stofna Félag aðstandenda.“
Skjólstæðingar Janus hafa sett af stað undirskriftarlista og skora með honum á stjórnvöld að loka ekki endurhæfingunni. Segir þar að með því að loka Janus sé verið „að gefast upp á þátttakendum og öllum sem þurfa á Janus að halda. Hver og einn einstaklingur fær að fara á sínum hraða og fá stuðninginn sem hann þarf til að verða hluti af samfélaginu aftur.“
Er þetta er ritað hafa tæplega 1.400 manns skrifað undir listann.
Ertu bjartsýn að undirskriftarlistinn nái að koma í veg fyrir lokunina eða hafa einhver áhrif?
„Undirskriftalistinn er framúrskarandi, frábært framtak Sigrúnar Óskar Bergman Steinarsdóttur, algerlega án aðkomu Janusar endurhæfingar. Það er klárt mál að hann hefur áhrif, samanber þetta viðtal. Listinn vekur athygli á hópnum okkar sem hingað til hefur átt alltof fáa málsvara.
Framtakið gefur jaðarsettum viðkvæmum hópi rödd sem skiptir gríðarlega miklu máli. Augljóst er núna að almenningi er ekki sama um hópinn okkar. Vonin er auðvitað sú að samtakamáttur almennings ásamt góðri aðstoð fjölmiðla leiði til farsællar niðurstöðu fyrir hópinn.“
Að sögn Kristínar hefur plássum innan Janusar fækkað verulega yfir árin. Árið 2020 voru 140 pláss í boði á mánuði, í lok síðasta árs voru plássin orðin aðeins 60 og 1. júní verður þessi endurhæfing ekki lengur í boði fyrir þessa einstaklinga.
Þetta er að eiga sér stað á sama tíma og hávært ákall er frá almenningi um betra aðgengi að geðendurhæfingu, ekki síst hjá þeim hópi sem er með taugaþroskaröskun.
Kristín segir ákallið hafa fengið hljómgrunn í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, en þar segi að sérstök áhersla verði lögð á að auka aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu. Þannig telji stjórn Janusar ákvörðun þessa, að fjármagna ekki endurhæfinguna áfram, ganga í berhögg við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.
Þá segir Kristín mikla vinnu hafa verið lagða í þróun og uppbyggingu Janusar síðustu 25 ár. Markmiðið hafi verið að starfsemin geti þjónað þörfum allra sem best og skili fólki árangri.
Því segir hún ákvörðunina óskiljanlega, sérstaklega í ljósi ofangreindrar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar. Raungerist ákvörðunin mun ómetanleg þekking og endurhæfingargeta tapast sem aldrei hefur verið meiri þörf á en nú.