Bifreið ekið á gangandi vegfaranda í Kópavogi

Bifreið var ekið á gangandi vegfaranda í Kópavogi í dag. …
Bifreið var ekið á gangandi vegfaranda í Kópavogi í dag. Myndin tengist fréttinni ekki beint. mbl.is/Sigurður Bogi

Bifreið var ekið á gangandi vegfaranda í Kópavogi í dag, en um var að ræða minni háttar slys.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Þá var tilkynnt um þjófnað úr matvöruverslun í Laugardalnum, en lögregla afgreiddi málið á vettvangi. 

Handtaka í miðbænum vegna ölvunaróspekta

Ökumaður var handtekinn í Hlíðunum vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna sem og sölu og dreifingu fíkniefna. Viðkomandi var færður á lögreglustöð til blóðsýnatöku og vistunar í fangaklefa. 

Þá sinnti lögreglan handtöku í miðborginni vegna ölvunaróspekta og brots á lögreglusamþykkt. Viðkomandi neitaði að segja til nafns og var vistaður í fangaklefa. 

Í Laugardalnum voru tveir ökumenn kærðir fyrir að aka of hratt þar sem hámarkshraði var 60 km/klst. Annar þeirra ók á 95 km/klst. og hinn á 109 km/klst. Málin voru afgreidd á vettvangi. 

Á lögreglustöð 4, sem sinnir verkefnum í Árbæ, Grafarholti, Grafarvogi, Norðlingaholti, Mosfellsbæ, Kjósarhreppi og Kjalarnesi, voru skráningarmerki bifreiða fjarlægð sökum vanrækslu á að færa þær til aðal- og endurskoðunar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert