Gæti gosið í kringum 20. mars

Þorvaldur Þórðarson segir að mögulega gjósi í kringum 20. mars.
Þorvaldur Þórðarson segir að mögulega gjósi í kringum 20. mars. mbl.is/Arnþór

Ef til eldgoss á Reykjanesskaga kæmi þá er líklegt að það verði í kringum 20. mars að sögn Þorvaldar Þórðarsonar eldfjallafræðings. Hann segir þó erfitt að segja til um það hvort að eldgos sé væntanlegt eður ei. Ekki er útilokað að kvika sé að safnast saman vestan við Kleifarvatn.

„Þessa stundina er að hægjast á landrisi við Sundhnúka,“ segir Þorvaldur í samtali við mbl.is og bætir við að mögulega sé það vegna þess að stutt sé í eldgos.

Erfitt sé þó að segja til um það og segir hann líkurnar vera „50/50.“

Um endurtekið efni að ræða

Eldgosið yrði að öllum líkindum á svipuðum slóðum og vanalega, að sögn Þorvaldar.

„Þetta yrði endurtekið efni og myndi líklega hefjast við Stóra-Skógfell og svo myndu sprungurnar liggja í báðar eða aðra hvora áttina. Eldgosið myndi svo standa yfir í nokkra daga eða vikur.“ 

Þessa stundina er jarðskjálftahrina í námunda við Kleifarvatn.
Þessa stundina er jarðskjálftahrina í námunda við Kleifarvatn. mbl.is/Rax

Sundhnúkaeldar að syngja sitt síðasta

Þorvaldur segir að þrátt fyrir að eldgosatímabilið á Reykjanesskaga sé rétt að byrja og muni jafnvel standa yfir næstu 200-300 árin sé margt sem bendi til þess að eldsumbrotunum við Sundhnúkagíga sé að ljúka.

„Fagradalsfjallseldar stóðu yfir í um tvö ár og eftir það færðist virknin yfir í Sundhnúka fyrir rúmu ári síðan. Þessi tvö umbrot eru ólík að mörgu leyti, við sáum til dæmis ekki jafn mikið landris við Fagradalsfjall. Þessi umbrotahrina sem að stendur yfir núna er að nálgast sín endalok. Ég á því fastlega von á því að Sundhnúkaeldum ljúki á þessu ári.“

Virknin bendir til þess að kvika sé að safnast

Þorvaldur segir að næsta hrina gæti svo hafist hvenær sem er og ekki sé ljóst hvar né hvenær það gerist. Í gærkvöldi hófst jarðskjálftahrina vestan við Kleifarvatn, það bendir mögulega til þess að kvika sé að safnast þar saman. 

„Aðrar gosreinar geta tekið við sér. Til dæmis er nú skjálftahrina við Sveifluháls vestan við Kleifarvatn. Það að skjálftahrina sé þar á fimm kílómetra dýpi bendir til þess að kvika sé að safnast þar undir og á endanum gætu jafnvel hafist aðrir eldar þar. Hvort það gerist á þessu ári, eftir tíu ár eða tuttugu ár er erfitt að segja til um.“

Þorvaldur segir þó að ef virknin tekur sig upp annars staðar róist líklega allt í kringum Grindavík og Bláa lónið. Þetta séu því jákvæðar fréttir fyrir þetta svæði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert