Félag í eigu Quang, NQ fasteignir, hefur tekið kauptilboði ónefnds fasteignafélags í Herkastalann á Kirkjustræti 2. Kaupverðið liggur ekki fyrir á þessari stundu en fasteignamat eignarinnar er rúmar 575 milljónir króna.
Að sögn Guðmundar Hallgrímssonar, fasteignasala hjá Lind, liggur fyrir samþykkt kauptilboð en að fyrirvarar séu á kauptilboðinu og því ekki hægt að slá því að föstu að eignin hafi verið seld á þessari stundu.
Herkastalinn er meðal þeirra bygginga sem flæktust inn í mál athafnamannsins Quang Le þegar gerð var húsleit í húsinu eftir að kaupsýslumaðurinn var handtekinn, grunaður um mansal og peningaþvætti og fleira.
Nokkur félaga Le hafa verið tekin til gjaldþrotaskipta en NQ fasteignir er ekki þar á meðal. Félagið átti einnig fasteign að Reykjavíkurvegi 66, sem var áður WOK-ON staður, en skyndibitastaðurinn Wok-To-Walk keypti fasteignina á um 70 milljónir kr. af NQ fasteignum í október 2024.
Quang Le keypti Herkastalann í janúar árið 2022 á um hálfan milljarð króna í gegnum NQ fasteignir. Hann opnaði svo gistiheimilið Kastali guesthouse í fasteigninni og var það starfrækt þar til í mars 2024 og lokaði skömmu eftir lögregluaðgerð sem beindist að starfsemi hans.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu kyrrsetti eignina í kjölfar þess að rannsókn hófst á athöfnum Quang Le í fyrra og var á tímabili með tæplega 190 milljóna króna veð í kastalanum. Þá kom einnig fram að Landsbankinn var með um 400 milljóna króna veð í Herkastalanum.
Herkastalinn var lengstum gistiheimili Hjálpræðishersins. Um er að ræða 1.405,4 fermetra húsnæði. Var húsið byggt árið 1916 og verður því 110 ára á næsta ári.
Húsið er friðað vegna aldurs en slíkt gerist sjálfkrafa þegar hús verða 100 ára gömul.