Á áttunda hundrað farþega íslensku flugfélaganna munu ekki geta flogið frá Þýskalandi á morgun vegna verkfalla ríkisstarfsmanna á flugvöllum. Þau munu hafa áhrif á áætlanir Íslendinga sem eiga bókað flug til Berlínar, Frankfurt og München á morgun.
Tveir farþeganna, feðgarnir Ragnar Aðalsteinn Guðjónsson og Huginn Bjarki Ragnarsson, komast ekki heim fyrr en á fimmtudaginn vegna verkfallsins. Höfðu þeir hug á því að fljúga heim frá Berlín á morgun en það verður ekki í boði.
„Maður er svo heppinn að vera vel liðinn í vinnunni, þannig að þetta gekk,“ segir Ragnar glaðbeittur í samtali við mbl.is. Hann segir þá í afmælisferð fyrir Hugin, sem er 16 ára, og þeir feðgar muni gera gott úr hlutunum.
Þeir munu fá hótelgistingu greidda auk þriggja máltíða á dag að andvirði 15 evra hver.
„Við fljúgum með Play og þeir sögðust ætla að koma mér heim við fyrsta valkost. Hann reyndist svo bara einn og það var á fimmtudaginn,“ segir Ragnar.
Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi hjá Icelandair, segir að verkfallið hafi áhrif á ferðaáætlanir á sjötta hundrað farþega flugfélagsins.
„Aflýsa þurfti ferðum til og frá München, Berlín og Frankfurt. Farþegar hafa fengið senda nýja ferðaáætlun og munu komast á áfangastað, ýmist samdægurs eða næsta dag,“ segir Guðni.
Nadine Guðrún Yaghi upplýsingafulltrúi Play segir að flugfélagið hafi fengið upplýsingar um verkfallið á föstudag og að í framhaldinu hafi verið send skilaboð á alla farþega sem áttu flug frá Berlín á morgun. Eru það tæplega 200 manns.
„Það eru um 40 sem eiga eftir að staðfesta hvaða breytingar þeir vilja gera á flugmiðanum og það er ekki seinna vænna því það er ekkert flogið á morgun,“ segir Nadine.