Ný tryggingarvernd fyrir þolendur ofbeldis í nánum samböndum

Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir, forstjóri Varðar Trygginga, og Linda Dröfn Gunnarsdóttir, …
Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir, forstjóri Varðar Trygginga, og Linda Dröfn Gunnarsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins. Ljósmynd/Aðsend

Vörður tryggingar hefur bætt nýrri vernd við hefðbundnar heimilistryggingar fyrir þau sem verða fyrir ofbeldi í nánu sambandi.

Sú tryggingarvernd er mótuð með ráðgjöf frá Kvennaathvarfinu. 

Markmiðið með nýju verndinni er að veita neyðaraðstoð, í formi fjárhagslegra bóta, fyrir þolendur ofbeldis í nánum samböndum og gera þeim kleift að breyta aðstæðum sínum. 

Gildir fyrir öll kyn og án viðbótarkostnaðar

Konur sem sækja aðstoð til Kvennaathvarfsins og eru tryggðar hjá Verði eiga rétt á bótum og geta sótt þær á einfaldan hátt, að því er segir í tilkynningu Varðar.

Verndin er nú hluti af öllum heimilistryggingum Varðar, gildir fyrir öll kyn og kemur án viðbótarkostnaðar. 

Það er sorgleg staðreynd að heimilið sé einn hættulegasti staðurinn fyrir konur. Við sem samfélag, við getum breytt þessu. Það er okkar hlutverk að vera til staðar fyrir fólk þegar áföll dynja á. Við hjá Verði ákváðum að bæta við Heimilisverndina okkar, þannig að öll sem verða fyrir ofbeldi í nánu sambandi eru tryggð og geta nú með einföldum hætti sótt í trygginguna og fengið fjárhagslegar bætur, og þannig frekar breytt aðstæðum sínum,“ er haft eftir Guðbjörgu Heiðu Guðmundsdóttur, forstjóra Varðar, í tilkynningunni. 

„Þetta frumkvæði Varðar er mikilvægt innlegg í baráttuna gegn ofbeldi í nánum samböndum og sýnir að fyrirtæki geta haft raunveruleg áhrif á líf fólks með því að láta sig þessi mál varða,“ er haft eftir Lindu Dröfn Gunnarsdóttur, framkvæmdastýru Kvennaathvarfsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert