Svandís Svavarsdóttir sneri aftur

Viðurkennast verður að oft hefur gengið meira á fyrir íslensku stjórnmálafólki en það gerði í vikunni sem leið og óhætt er að segja að einhvers konar lægð hafi legið yfir samfélagsmiðlum hjá helstu leikendum þess sviðs.  

Í nýjasta þætti Spursmála, sem sýndur var hér á mbl.is síðastliðinn föstudag, var farið yfir það sem hæst bar á góma á félagsmiðlum pólitíkusana. Yfirferðina má í heild sinni sjá í meðfylgjandi myndbandsspilara en henni er einnig gert skil hér að neðan. 

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins

Það sem var fyrirferðarmest á samfélagsmiðlum í liðinni viku var án efa Landsfundur Sjálfstæðisflokksins, sem minnti óneitanlega á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Svo sveitt og spennuþrungið leit það partí út fyrir að vera.

Sjálfstæðismenn kusu sér nýja forystu og til að gera langa sögu stutta þá vann ísdrottningin, Guðrún Hafsteinsdóttir, bardagakindina, Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, Diljá Mist Einarsdóttir tapaði fyrir kynjakvótakarlinum, Jens Garðari Helgasyni, Bjarni Benediktsson og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir kvöddu og nú getum við þá bara farið að tala um eitthvað allt annað.

Illu blóði hleypt af stað

En talandi um Diljá Mist. Margur er knár þótt hann sé smár og allt það en í óundirbúnum fyrirspurnartíma á þinginu í vikunni hleypti hún illu blóði í heilbrigðisráðherra, Ölmu Möller, sem fékk blóðnasir í ræðustól alþingis þegar hún veitti lillunni andsvar.

Hagræðingarhetjur Kristrúnar

Hagræðingarhetjur landsins skiluðu tillögum til ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur þar sem yfir 4000 íslenskir baunateljarar höfðu sent inn hugmyndir af því hvernig best sé að herða sultarólina.

Alltaf að spara!

Johnny Bravo eða öllu heldur umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Jóhann Páll Jóhannsson, stærði sig af ákvörðun sinni um að falla frá drjúgum fjárheimildum til orku- og umhverfisráðuneytisins. 

Leikskólinn við Austurvöll

Í leikskólanum við Austurvöll leiruðu þingmenn fígúrur í öllum regnboganslitum og hétu því að hafa Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna ávallt að leiðarljósi í störfum sínum.

View this post on Instagram

A post shared by Alþingi (@althingi)

Spennan í hámarki

Sanna Magdalena Mörtudóttir réði sér ekki fyrir kæti og var mega spennt yfir því að kynna aðgerðaráætlun nýs borgarmeirihluta. Þar koma alls kyns spretthópar, stýrihópar, selir og kópar við sögu enda brýnast að fúlgum fjár í bæta aðbúnað selanna í Húsdýragarðinum - það sér það hvert mannsbarn.

Heimgreiðslur til foreldra

Nema kannski Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, sem skaut föstum skotum á nýjan borgarmeirihluta en hún vill setja meira púður í að greiða úr leikskólavandanum með tillögu um heimgreiðslur til foreldra.

Svandís Svavarsdóttir kveikti líf

Undur og stórmerki gerðust í vikunni þegar skyndilega kviknaði líf á Instagram-reikningi Vinstri grænna. Þar kenndi Svandís Svavarsdóttir ungum VG-liðum frumvarpalestur. Mikið var gott að sjá hana aftur.

Hitti naglann á höfuðið

Snorri Másson var ekkert rosalega öflugur á samfélagsmiðlum í vikunni en hann hitti þó naglann á höfuðið með þegar hann birti færslu á Facebook og gagnrýndi þýðingar á tölvupóstum frá skólayfirvöldum og stofnunum til innflytjenda.

Blómlegri borg 

Heiða Björg Hilmisdóttir leiddi sinn fyrsta borgarstjórnarfund í hlutverki borgarstjóra og kynnti samstarfsyfirlýsinguna sem inniheldur 25 tillögur að blómlegri borg byggða á félagshyggjugrunni. Næstu 14 mánuðir verða „legendary“!

Nýjasta þátt Spursmála má í heild sinni heyra og sjá í spilaranum hér að neðan:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert