Anna Birna Almarsdóttir, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla, er verkefnisstjóri átaksverkefnisins „Vitundarvakning og valdefling eldra fólks um notkun svefnlyfja“ sem Alma D. Möller heilbrigðisráðherra setur opinberlega af stað á mánudag. Átakið er notendamiðað með eldri borgara við stjórnvölinn og er það nýlunda hérlendis. „Allir landsmenn hafa aðgang að verkefninu,“ leggur Anna Birna áherslu á.
„Þetta er vitundarvakning sem á að vara eldra fólk við hættum af svefnlyfjum og benda því á aðrar lausnir við svefnvanda án lyfja vegna þess að þau virka ekki sérstaklega vel og lengi,“ heldur Anna Birna áfram. Hún bendir á að 2020 hafi um 10% Íslendinga fengið einn eða fleiri lyfseðla á öll svefnlyf, en 2024 hafi um 6% fengið einn eða fleiri lyfseðla á aðeins algengustu svefnlyfin og eru þá ekki öll talin. „Árið 2020 notuðu Íslendingar rúmlega sex sinnum meira af svefnlyfjum en Danir, sem voru lægstir Norðurlandaþjóða.“
Svefnlyf eru ein ofnotuðustu lyf á Íslandi og fólk er árum saman á lyfjunum án þess að vita að þau séu hætt að virka, að sögn Önnu Birnu.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í gær, laugardag.