„Hönnuðum mannvirkja ber að fara eftir ákvæðum laga og reglugerða við alla sína hönnun. Staðsetning bygginga er stór áhrifaþáttur í hönnunarforsendum mannvirkja. Veðurhjúpur byggingar skal standast þá umhverfisþætti sem búist er við að byggingin verði fyrir hvort sem það er vegna vinda, snjós, salts eða sólar.“
Þetta segir Gústaf Adolf Hermannsson, sérfræðingur í starfsumhverfi mannvirkjagerðar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, HMS, vegna fyrirspurnar Morgunblaðsins eftir að glerveggur á húsi við Fiskislóð 31 stórskemmdist í flóðunum sem urðu um síðustu helgi og ollu líka umtalsverðu tjóni á innanstokksmunum.
Hann segir hönnuði styðjast við Evrópustaðla, „Eurocodes“, og í þá sé vísað í byggingarreglugerð. Þar séu ákvæði um val á gleri miðað við áformuð not og aðstæður. Þar sé að finna íslenskan þjóðarviðauka vegna þess álags sem hér er vegna legu Íslands og veðurfars. Margar byggingarvörur sem notaðar eru í mannvirki eiga að vera CE-merktar og þeim fylgja DoP-skjöl (Declaration of performance).
„Þau innihalda m.a. upplýsingar um álagsprófanir sem segja til um hve mikið tiltekin vara þolir í áraun. Því skal ávallt skoða slík gögn og tryggja það að varan uppfylli áformuð not eða tryggi að varan sé nothæf í viðkomandi mannvirkjagerð. Byggingarfulltrúi hefur rétt á að kalla eftir nákvæmari útfærslum á byggingarhlutum telji hann þörf á.“
Gústaf segir skipulagshönnun ákveðinna svæða einnig geta innihaldið sérákvæði um álagskröfur vegna staðsetningar eða annarra hluta sem eru taldir óhefðbundnir.
„Ég veit ekki hvernig skipulagsmál eða hönnunarforsendur bygginga eru á þessu svæði og hvort sérstakt tillit sé tekið til staðsetningar bygginganna.“
Hann nefnir að einnig þurfi að horfa til þess að hlýnun jarðar sé að raungerast hratt.
„Hlýnun jarðar og loftslagsbreytingar valda því að veðurkerfi verða öfgakenndari. Við sjáum oftar miklar veðurhviður sem geta haft meiri afleiðingar en áður. Því er það orðið enn mikilvægara að allir taki saman höndum; eftirlitsaðilar, hönnuðir og framkvæmdaaðilar, um að við hönnum vel, byggjum vel og notum réttar byggingarvörur miðað við áformuð not.“
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út fimmtudaginn 6. mars.