Mikill skortur er á bæði fyrirlestrastofum og kennsluhúsnæði fyrir verklega kennslu við Háskóla Íslands sem bitnað hefur illa á læknadeild HÍ.
Þetta kemur fram í nýrri grein í Læknablaðinu þar sem fjallað er um læknaskort á Íslandi. Í greininni er rætt við þau Þórarin Guðjónsson, forseta læknadeildar HÍ, og Þórdísi Jónu Hrafnkelsdóttur, kennslustjóra læknadeildar.
Þau segja að árið 2019 hafi nemendum verið fjölgað úr 48 í 60. Fjölguninni hafi ekki fylgt viðbótarfjármagn og því ekki möguleiki á nýráðningum kennara. Þau benda á að þegar nemendum fjölgaði á síðari námsárunum hafi þörf fyrir fleiri kennara komið berlega í ljós, meðal annars vegna aukins umfangs verklegrar kennslu.
„Á klínísku árunum (ár 4-6) þurfti því að hagræða talsvert. Deildin fékk loks aukið fjármagn árið 2023, sem gerði kleift að fjölga í 75 nemendur haustið 2024. Vandinn við fjölgun nema er þó ekki einungis bundinn við klínísku kennsluna. Mikill skortur er á bæði fyrirlestrastofum og kennsluhúsnæði fyrir verklega kennslu við HÍ sem bitnað hefur illa á Læknadeild. Nýtt hús Heilbrigðisvísindasviðs HÍ (NHHÍ) mun væntanlega leysa þann vanda,“ segir í greininni.
Þá segja þau Þórarinn og Þórdís að í kjölfar skýrslu/úttektar frá Læknafélagi Íslands haustið 2021 hafi komið ákall frá stjórnvöldum um að fjölga læknanemum verulega.
„Í skýrslunni kom fram að læknamönnun á Íslandi væri mjög ábótavant og að ráðast þyrfti í átak og mennta fleiri lækna. Læknadeild fór strax í mikla greiningarvinnu og kortlagði hvað þyrfti að koma til ef fjölga ætti nemum í 75 og svo í framhaldinu í 90. Niðurstaðan var skýr; það þyrfti að koma til nýráðninga á kennurum og innviðir þyrftu að stórbatna.“
Þegar þau eru spurð að því hvort læknadeild stefni á frekari fjölgun læknanema á komandi árum, segja þau:
„Í stuttu máli er það fyrst og fremst aðstöðuleysið og skortur á fjármagni til að ráða nýja kennara sem hindrar það. Við sendum minnisblað til Háskóla, vísinda og nýsköpunarráðuneytisins (HVIN) með útreikningum varðandi það fjármagn sem þyrfti til þessarar fjölgunar. Á deildarfundi Læknadeildar haustið 2023 var samþykkt að fjölga úr 60 í 75. Fjármagnið sem var veitt til þessarar fjölgunar náði fyrst og fremst til ráðningar nýrra kennara, aðstöðuleysið er enn vandamál.“