Þotueldsneyti lekur úr olíuskipi sem hefur í dag staðið í ljósum logum í Norðursjó eftir árekstur við fraktskip.
37 voru fluttir í land og einn er á sjúkrahúsi eftir árekstur fraktskipsins Solong við sænska olíuskipið M.V. Stena Immaculate á tíunda tímanum í morgun, 16 km austur af Hull.
Breska ríkisútvarpið greinir frá að eldur hafi komið upp í báðum skipum og slysið hratt af stað umfangsmikilli björgunaraðgerð.
Crowley, sem gerir út Stena Immaculate sem siglir undir flaggi Bandaríkjanna, segir alla áhöfn skipsins vera heila á húfi.
Stena-skipið, sem er er 183 metra langt, lá við akkeri þegar Solong, sem siglir undir portúgölsku flaggi, rakst í það á 16 hnúta hraða.
Stena var á leið frá kórinþíska bænum Agíoí Þeodoroí á Grikklandi til Killingholme í Bretlandi. Solong var á leið frá Grangemouth í Skotlandi til Rotterdam í Hollandi. Enn er óljóst hvað olli árekstrinum.
Crowley greinir frá því að olíuflutningaskipið hafi geymt þotueldsneyti um borð. Blaðamaður BBC segist telja eldsneytið vera í eigu Bandaríkjahers, þar sem er Stena Immaculate er hluti af 10 skipa flota sem flytur eldsneyti til bandarískra herstöðva í Bretlandi.