Öðrum mannanna sem fór í sjóinn við Akraneshöfn í óveðrinu í síðustu viku er haldið sofandi á gjörgæsludeild Landspítalans.
Þetta segir Bergþór Jóhannsson, forstjóri Hagtaks, í samtali við mbl.is en tveir starfsmenn á vegum Hagtaks köstuðust í sjóinn þegar alda hrifsaði þá með sér. Bergþór segir að maðurinn hafi verið vakinn á föstudaginn en verið svæfður aftur.
Maðurinn, sem liggur á gjörgæsludeild, var í bílnum þegar aldan hreif bílinn með sér en hinn stóð á bryggjunni en náði ekki að hlaupa undan öldunni. Hann var fluttur á Heilbrigðisstofnun Vesturlands en var útskrifaður skömmu síðar.