Leikjahönnuðurinn Steingerður Lóa Gunnarsdóttir ákvað að hætta við ferð sína til Bandaríkjanna þegar utanríkisráðuneytið gaf út reglugerð um að trans fólk fái ekki vegabréfsáritun.
Fram kemur í reglugerðinni að ef misræmi sé á kyni við fæðingu og kyni á vegabréfinu megi koma í veg fyrir landgöngu, og jafnvel gefa viðkomandi ævilangt landvistarbann.
Ætlunin var að fljúga til San Francisco á föstudaginn og mæta á GDC (Game Developer Conference), ráðstefnu sem Steingerður hefur mætt á átta sinnum og er mikilvæg hennar starfi.
Hún starfar sem sjálfstæður leikjahönnuður og hefur myndað mikilvæg sambönd á ráðstefnunni síðustu ár. Einnig vinnur hún fyrir og sér um borðspilahorn fyrir alla ráðstefnugesti, fyrir SU&SD-borðspilafréttamiðilinn.
Steingerður tók meistarapróf í leikjahönnun í Bandaríkjunum og dvaldi í New York-borg í tvö ár. Hún ætlaði að fara til Bandaríkjanna þrátt fyrir allt sem þar er í gangi, en að hennar sögn er venjulegt fólk í Bandaríkjunum ennþá indælt og gott, sérstaklega í New York og Kaliforníu.
Aðspurð segir hún ömurlegt að vera meinaður aðgangur að umhverfi sem henni þykir vænt um og á vini frá, það hafi tekið smá tíma að átta sig á því og jafna sig á því. Hún segist þó ánægð að hafa tekið ákvörðunina að fara ekki.
„Það er alveg séns að ég hefði getað farið og ekkert hefði komið upp á, en bara ekki áhættunnar virði.“
Segir hún það rússneska rúllettu um vesen á landamærunum fyrir sig að fara til Bandaríkjanna í dag. Því hafi hún eytt síðustu viku í að breyta flugi, bókunum, gistingu og finna einhvern annan til að taka við með stuttum fyrirvara.
Þetta er í fyrsta sinn í hennar ferli sem hún upplifir að brotið sé á réttindum hennar. Henni hafi ekki dottið í hug að hún þyrfti að bæta við Bandaríkjunum á listann af löndum sem hún gæti ekki ferðast til.
Aðspurð segir Steingerður ráðstefnuna hafa stækkað tengslanet sitt síðustu ár, því komi það niður á atvinnumöguleikum að komast ekki út.
Hún hefur fengið passa og hótel herbergi síðustu ár í staðinn fyrir að stýra hópi af sjálfboðaliðum sem sjá um borðspilahornið á ráðstefnunni.
„Þetta er alveg 30 þúsund manna ráðstefna. Þannig að ég þurfti að finna einhvern til að taka við mínu hlutverki þar.“
Hún fékk mikinn stuðning frá SU&SD, sem hún vinnur venjulega fyrir. Þar er trans manneskja í teyminu og mikill skilningur sýndur stöðu Steingerðar.
„Ég ákvað að fara á hátíð í Berlín í maí í staðinn,“ segir Steingerður.
Steingerður hefur unnið sem leikjahönnuður í tíu ár.
Hún kennir leikjahönnun í HR og hefur sjálf gefið út þrjá leiki, tvo á síma og einn á Nintendo Switch. Triple Agent og Úti á túni eru símaleikir og Sumer er fyrir Nintendo Switch.
Steingerður segir verri hluti vera að gerast, frelsi og líf séu í húfi út af reglugerðum, en henni hafi þótt rétt að deila bæði upplýsingunum um reglugerðina og lífsreynslu sinni.
„Það er svo margt í gangi þarna fyrir vestan haf en maður heyrir svo lítið af beinum afleiðingum um hvernig það hefur áhrif á fólkið í kringum sig,“ skrifar hún á Facebook.