Ferðin til Bandaríkjanna „ekki áhættunnar virði“

Steingerður með eiginkonu sinni.
Steingerður með eiginkonu sinni. Ljósmynd/Aðsend

Leikja­hönnuður­inn Stein­gerður Lóa Gunn­ars­dótt­ir ákvað að hætta við ferð sína til Banda­ríkj­anna þegar ut­an­rík­is­ráðuneytið gaf út reglu­gerð um að trans fólk fái ekki vega­bréfs­árit­un.

Fram kem­ur í reglu­gerðinni að ef mis­ræmi sé á kyni við fæðingu og kyni á vega­bréf­inu megi koma í veg fyr­ir land­göngu, og jafn­vel gefa viðkom­andi ævi­langt land­vist­ar­bann.

Ætl­un­in var að fljúga til San Francisco á föstu­dag­inn og mæta á GDC (Game Developer Con­f­erence), ráðstefnu sem Stein­gerður hef­ur mætt á átta sinn­um og er mik­il­væg henn­ar starfi.

Hún starfar sem sjálf­stæður leikja­hönnuður og hef­ur myndað mik­il­væg sam­bönd á ráðstefn­unni síðustu ár. Einnig vinn­ur hún fyr­ir og sér um borðspila­horn fyr­ir alla ráðstefnu­gesti, fyr­ir SU&SD-borðspila­fréttamiðil­inn.

Venju­legt fólk í Banda­ríkj­un­um er in­dælt og gott

Stein­gerður tók meist­ara­próf í leikja­hönn­un í Banda­ríkj­un­um og dvaldi í New York-borg í tvö ár. Hún ætlaði að fara til Banda­ríkj­anna þrátt fyr­ir allt sem þar er í gangi, en að henn­ar sögn er venju­legt fólk í Banda­ríkj­un­um ennþá in­dælt og gott, sér­stak­lega í New York og Kali­forn­íu.

Aðspurð seg­ir hún öm­ur­legt að vera meinaður aðgang­ur að um­hverfi sem henni þykir vænt um og á vini frá, það hafi tekið smá tíma að átta sig á því og jafna sig á því. Hún seg­ist þó ánægð að hafa tekið ákvörðun­ina að fara ekki.

„Það er al­veg séns að ég hefði getað farið og ekk­ert hefði komið upp á, en bara ekki áhætt­unn­ar virði.“

Seg­ir hún það rúss­neska rúll­ettu um vesen á landa­mær­un­um fyr­ir sig að fara til Banda­ríkj­anna í dag. Því hafi hún eytt síðustu viku í að breyta flugi, bók­un­um, gist­ingu og finna ein­hvern ann­an til að taka við með stutt­um fyr­ir­vara.

Þetta er í fyrsta sinn í henn­ar ferli sem hún upp­lif­ir að brotið sé á rétt­ind­um henn­ar. Henni hafi ekki dottið í hug að hún þyrfti að bæta við Banda­ríkj­un­um á list­ann af lönd­um sem hún gæti ekki ferðast til.

Steingerður hefur unnið sem leikjahönnuður í tíu ár og kennir …
Stein­gerður hef­ur unnið sem leikja­hönnuður í tíu ár og kenn­ir leikja­hönn­un í HR Ljós­mynd/​Aðsend

Mik­ill skiln­ing­ur í teym­inu

Aðspurð seg­ir Stein­gerður ráðstefn­una hafa stækkað tengslanet sitt síðustu ár, því komi það niður á at­vinnu­mögu­leik­um að kom­ast ekki út.

Hún hef­ur fengið passa og hót­el her­bergi síðustu ár í staðinn fyr­ir að stýra hópi af sjálf­boðaliðum sem sjá um borðspila­hornið á ráðstefn­unni.

„Þetta er al­veg 30 þúsund manna ráðstefna. Þannig að ég þurfti að finna ein­hvern til að taka við mínu hlut­verki þar.“

Hún fékk mik­inn stuðning frá SU&SD, sem hún vinn­ur venju­lega fyr­ir. Þar er trans mann­eskja í teym­inu og mik­ill skiln­ing­ur sýnd­ur stöðu Stein­gerðar.

„Ég ákvað að fara á hátíð í Berlín í maí í staðinn,“ seg­ir Stein­gerður.

Kenn­ir leikja­hönn­un í HR

Stein­gerður hef­ur unnið sem leikja­hönnuður í tíu ár.

Hún kenn­ir leikja­hönn­un í HR og hef­ur sjálf gefið út þrjá leiki, tvo á síma og einn á Nin­t­endo Switch. Triple Ag­ent og Úti á túni eru síma­leik­ir og Su­mer er fyr­ir Nin­t­endo Switch.

Stein­gerður seg­ir verri hluti vera að ger­ast, frelsi og líf séu í húfi út af reglu­gerðum, en henni hafi þótt rétt að deila bæði upp­lýs­ing­un­um um reglu­gerðina og lífs­reynslu sinni.

„Það er svo margt í gangi þarna fyr­ir vest­an haf en maður heyr­ir svo lítið af bein­um af­leiðing­um um hvernig það hef­ur áhrif á fólkið í kring­um sig,“ skrif­ar hún á Face­book.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert