Fraktskipið flutti gáma fyrir Samskip Multimodal

Samskipum er efst í huga öryggi og velferð áhafna skipanna …
Samskipum er efst í huga öryggi og velferð áhafna skipanna og viðbragðsaðila. Skjáskot

Frakt­skipið Solong, sem skall á olíu­flutn­inga­skip­ið Stena Immacula­te, flutti gáma fyrir Samskip Multimodal í Evrópu. Olíuflutningaskipið var við akk­eri um 16 kíló­metra und­an strönd Hull í Bretlandi þegar fraktskipið skall á því.

Tekið skal fram að Samskip Multimodal er systurfélag Samskipa hf. og er með sitt eigið skipakerfi.

Í samtali við mbl.is segir Ágústa Hrund Steinarsdóttir, forstöðumaður markaðs- og samskiptadeildar Samskipa, að Samskipum sé efst í huga öryggi og velferð áhafna skipanna auk viðbragðsaðila. Björgunaraðgerðir hafi staðið í allan dag.

Samskip Multimodal eru að sögn Ágústu í nánu sambandi við yfirvöld og eigendur skipsins, sem leigt er með áhöfn af eiganda þess. Samskip Multimodal beri þannig ekki ábyrgð á skipinu, þó það hafi sinnt flutningum fyrir félagið.

Upplýsingar um tildrög slyssins liggja ekki fyrir

Í tilkynningu Samskipa segir að unnið sé að því að meta möguleg áhrif á sendingar og viðskiptavinir sem málið varðar verði upplýstir um þau. Ekki er þó um að ræða sendingar á leið til eða frá Íslandi.

Tvö íslensk skip áttu leið hjá slysstað frakt­skipsins Solong og olíu­flutn­inga­skip­sins Stena Immacula­te.

Voru það skipin Lagarfoss frá Eimskipum og Arnarfell frá Samskipum. Mikil þoka var við Austur-Jórvíkurskíri á Englandi og sáu skipverjar Lagarfosss því ekki til slyssins, samkvæmt upplýsingum frá Eimskip.

Samkvæmt upplýsingum frá Samskip kom skyggnið einnig í veg fyrir að skipverjar gætu nokkuð séð til slyssins.

Upplýsingar um tildrög slyssins liggja ekki fyrir að svo stöddu.

Uppfært:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert