„Hugmyndin er að börn með skerta hreyfigetu geti stundað íþróttir hjá sínu íþróttafélagi, eins og hver annar.“ Þetta segir Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir en hún stendur fyrir vikulegum körfuboltaæfingum fyrir börn með skerta hreyfigetu hjá Íþróttafélagi Reykjavíkur (ÍR) í samstarfi við Íþróttasamband Íslands (ÍSÍ).
Verkefnið er hluti af verkefni ÍSÍ, UMFÍ og ÍF, Allir með, sem vinnur að því að fjölga tækifærum fatlaðra til íþróttaiðkunar í sínu nærumhverfi í samstarfi við íþróttahreyfinguna.
Æfingarnar í ÍR eru fyrstar sinnar tegundar hér á landi en þar fá börnin sérstaka körfuboltahjólastóla til að stunda íþróttina. Stólarnir voru greiddir af ÍSÍ og Evrópska körfuknattleikssambandinu en börn með skerta hreyfigetu eiga ekki rétt á sérstökum hjólastólum eða öðrum búnaði til íþróttaiðkunar hjá tryggingafélögum heldur aðeins fyrir nauðsynlega hreyfingu.
Jóhanna segir að markmiðið með æfingunum sé í fyrsta lagi svo að börn með skerta hreyfigetu geti tekið þátt í skipulagðri íþróttastarfsemi með aðlögun að þörfum þeirra auk þess til að vekja athygli á takmörkuðum tækifærum til hreyfingar hjá börnum með skerta hreyfigetu. Segir hún að aðeins 4% barna með skerta hreyfigetu séu í virkri hreyfingu í dag. Það sé eitthvað sem þurfi að bæta.
Ákveðið var að hafa æfingarnar innan íþróttafélags en ekki stofna sérstakt félag utan um þær. Með því geti börnin æft íþróttina með félögum sínum og tilheyrt stærra samfélagi.
„Það er ótrúlega mikilvægt í lífi barna að tilheyra samfélagi eins og íþróttafélagi,“ segir Jóhanna.
Börn á aldrinum 7-14 geta skráð sig á æfingarnar. Jóhanna segir að í dag séu þrjú börn með fasta skráningu á æfingarnar en íþróttafélagið er með 7 stóla til afnota, auk þess sem von er á 5 til viðbótar.
Á meðan börn með skerta hreyfigetu nota ekki alla stólana hafa börn sem iðka íþróttir hjá ÍR stigið inn í og tekið þátt í æfingunum við góðar viðtökur.