Norskir lögreglumenn kalla nú eftir því að vopnast eftir að lögregluþjónn þar í landi var skotinn við reglubundið eftirlit.
Fjölnir Sæmundsson, formaður Landssambands lögregluþjóna var nýlega á fundi með starfsbræðrum á Norðurlöndunum, þar sem þetta kom fram. Danska lögreglan vopnaðist á einum degi vegna sambærilegs atviks fyrir nokkru.
Rennur upp sá dagur að íslenska lögreglan vopnast skotvopnum?
„Ég er ekki viss um það. Það er ofboðslega mikil breyting á samfélagi, að lögregla vopnist skotvopnum. Ég var nú á fundi úti í Noregi um daginn. Þar var nú verið að fara í gegnum þetta. Norskur lögreglumaður var skotinn nýlega þegar hann var að stoppa bifreið og svo var þessi skotárás í Svíþjóð. Þá sögðu Norðmennirnir, ja nú er bara kominn tími til að við berum skotvopn.
Norskir lögreglumenn bera almennt ekki skotvopn nema á vissum árstímum. Þannig að þessi þróun er komin til Noregs. Svíarnir segja alltaf við okkur. Þetta byrjar í Svíþjóð, svo fer þetta til Danmerkur, svo til Finnlands, svo til Noregs og til Íslands,“ upplýsir Fjölnir í viðtali í Dagmálum í vikunni.
Hann segir að stór hluti lögreglumanna vilji helst ekki bera skotvopn við dagleg störf. Í því felist ákveðin óþægindi.
„Við í íslensku löggæslunni viljum dálítið vera nálægt fólki. Við viljum getað labbað um á 17. júní og heilsað og vinkað litlum börnum. Þegar ég er með skotvopn þarf ég að vera með öryggisradíus í kringum mig. Það má enginn koma nálægt mér. Það er þessi kannski breyting. Erum við tilbúin í hana?“
Fjölnir segir að mjög mörg tilvik sem íslenska lögreglan er að glíma við kalli ekki endilega á skotvopn og nefnir sérsveitina sem hægt er að kalla til við alvarlegar aðstæður. Hann þekkir hins vegar að starfa úti á landi þar sem voru hundrað kílómetrar í sérsveitina og þá hafi hann þurft að vopnast sjálfur.
Lögreglan er nú komin með rafbyssur og segir Fjölnir að það sé millistig sem henti oft betur við þær aðstæður sem kunna að koma upp.
„Ég held að Íslendingar almennt vilji einhvern veginn halda í sitt sakleysi og lögreglan meira að segja vill ekki segja Íslendingum hvað er að gerast á landinu af því að hún vill líka að þeir haldi í sitt öryggi og sakleysi. Ég lít dálítið þannig á það,“ segir Fjölnir.
En hrökkvið þið ekkert við þegar norskir kollegar ykkar segja, nú er kominn tími á að við fáum skotvopn?
„Maður heyrði það að danska lögreglan vopnaðist á einni nóttu þegar lögreglumaður var skotinn. Væntanlega gerist það í Noregi líka,“ segir Fjölnir.
Viðtalið við Fjölni Sæmundsson, formann Landssambands lögreglumanna, geta áskrifendur horft á með því að smella á hlekkinn hér að neðan.