Háþrýstisvæði sem er skammt suðvestur af landinu stjórnar veðrinu á landinu í dag og næstu daga.
Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. Það verður vaxandi vestanátt, 10 til 18 m/s á norðanverðu landinu síðdegis, en heldur hvassari í vindstrengjum á stöku stað við fjöll. Vindur verður hægari sunnan til. Það verður að mestu skýjað og dálítil væta norðan- og vestanlands en annars bjart með köflum.
Á morgun verður norðvestlæg átt 3-8 m/s, hvassast við norðaustur- og suðvesturströndina. Það verður skýjað með köflum norðan og vestan til, en yfirleitt bjart suðaustan til. Hiti verður 1 til 9 stig að deginum, mildast syðst.