„Hóta börnunum mínum og fjölskyldu“

Hótanir í garð lögreglumanna hafa færst í vöxt síðustu ár. Skemmdir hafa verið unnar á bifreiðum þeirra og grófasta dæmið er þegar kveikt var í bíl lögreglukonu fyrir utan fjölbýlishús sem hún býr í. Fjölnir Sæmundsson, formaður Landssambands lögreglumanna, segir þessa þróun eiga sér stað á öllum Norðurlöndunum.

Fjölnir er gestur Dagmála Morgunblaðsins í dag og ræðir þar þann veruleika sem lögreglumenn búa við í harðnandi heimi. „Fyrsta hótunin þegar verið er að hóta mér sem lögreglumanni er að hóta börnunum mínum eða fjölskyldunni. Það er hótunin sem fer inn þó að maður þykist vera harður. Ég segi oft að það er ekkert mál að hóta mér, en ég er varnarlausari þegar fjölskyldu minni, börnum eða barnabörnum er hótað,“ upplýsir Fjölnir í viðtalinu.

Fá lögreglumenn á heilann

Það er ekki nýtt af nálinni að lögreglumönnum sé hótað. En hér áður fyrr var þetta frekar í formi þess að einstaklingur var með stóryrði þegar honum var stungið í fangaklefa og var svo gjarnan beðist afsökunar á ummælunum daginn eftir og því borið við að viðkomandi hefði verið fullur. Nú segir Fjölnir þessar hótanir annars eðlis og algengari. „Þetta er að gerast í dag. Þetta er mikið að gerast á netinu og það er fólk sem fær lögreglumenn á heilann. Ég veit að sumir þeirra hafa verið framarlega í mótmælunum. Þar er fólk búið að fá þá á heilann og er að ofsækja þá á internetinu og senda á þá óhróður og senda þeim hótunarbréf.“ Fjölnir greinir frá því í viðtalinu að sveit þeirra lögreglumanna sem er kölluð út þegar mótmæli eru telur níu manns. Liðsauki er svo kallaður til úr öðrum deildum. Fjölnir bendir á að fólk sem hefur fengið lögreglumenn á heilann hefur fengið dóma fyrir hótanir. Hann nefnir sem dæmi að Íslendingur sem nú situr í fangelsi grunaður um morð hafi fengið dóm fyrir að ofsækja lögreglukonur.

„Svo erum við komin með einstaklinga sem þú trúir að framkvæmi hótanir. Í þeim málum þar sem bílar lögreglumanna hafa verið skemmdir þá vitum við að það kemur bara fólk frá öðru landi, frá Svíþjóð. Kemur hérna inn og skemmir eitthvað og er svo bara farið aftur. Þannig að við erum að fást við glæpasamtök líka,“ upplýsir Fjölnir.

Sænska ástandið breiðist út

Talað hefur verið um hið sænska ástand og vísað þar til ástandsins í Svíþjóð þar sem gengjastríð, sprengingar og skotárásir eru nánast orðið daglegt brauð. Þetta ástand hefur breiðst út til Norðlandanna og Ísland stefnir í sömu átt. Fjölnir nefnir sem dæmi að hann hafi heyrt frá konu um daginn sem ætlaði að leita til manns í íslensku undirheimunum til að taka á máli sem hún var að glíma við. Að sögn Fjölnis ræddi hún við mann sem hefur verið álitinn áhrifamikill á þessu sviði. Hann sagðist ekki hafa nein völd lengur og benti henni á að hún yrði að tala við einhverja Albana. Hann gæti ekki gert neitt lengur.

Í Dagmálum ræðir Fjölnir þetta ástand í þaula og hvernig íslensk lögregla er í stakk búin til að taka á þeirri þróun sem nú er að verða hér á landi. Fyrirmyndin er Svíþjóð og þróunin þar hefur breiðst út og mun ná til Íslands.

Þátturinn í heild sinni er aðgengilegur fyrir áskrifendur með því að smella hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert