Borgarráð Reykjavíkur hefur samþykkt að bjóða út framkvæmdir vegna endurgerðar á níu hraðahindrunum á þessu ári. Framkvæmdirnar verða boðnar út í tveimur útboðum en gert er ráð fyrir að þær hefjist í maí og verði lokið í september.
Athygli vekur að kostnaðaráætlun hljóðar upp á 200 milljónir króna. Í fyrra útboði verða boðnar út fjórar hraðahindranir; við Álfheima, Skeiðarvog, Listabraut og við Langarima. Kostnaðaráætlun við endurgerð þessara hraðahindrana er 80 milljónir króna, eða 20 milljónir á hverja.
Í verkinu felst jarðvinna og jarðvegsfylling, malbikun, lítils háttar veituvinna, uppsetning umferðarmerkja og yfirborðsmerkingar, þökulagning og sáning auk fullnaðarfrágangs. Þá er ótalin niðursetning á granítkanti og forsteyptri graníteiningu en upprampar hraðahindrana og kantsteinar verða úr innfluttu graníti frá Svíþjóð.
Í seinna útboði verða boðnar út hraðahindranir í Norðurfelli við Fannarfell, í Norðurfelli við Eddufell, í Suðurhólum, í Austurbergi við Suðurhóla og í Vesturhólum við Arahóla. Kostnaðaráætlun er upp á 120 milljónir króna, sem þýðir að hver hraðahindrun kostar 24 milljónir króna.