„Viðskiptahættir Storytel eru bara þannig að okkar mati að þeir eru ekki í lagi fyrir markaðsráðandi fyrirtæki,“ segir Margrét Tryggvadóttir, formaður Rithöfundasambands Íslands (RSÍ).
RSÍ hefur sent erindi til Samkeppniseftirlitsins (SKE) vegna hugsanlegrar misnotkunar á markaðsráðandi stöðu hljóðbókaveitunnar Storytel á íslenskum bókamarkaði.
Í erindinu er vísað til markaðsgreiningar SKE frá 2019 þar sem fram kemur að Storyside, útgáfuarmur Storytel, hafi um 80-85% hlutdeild á hljóðbókamarkaði. Storytel hafi svo enn sterkari stöðu á markaði fyrir smásölu hljóðbóka, eða um 95-100% hlutdeild. Ekki liggja fyrir nýrri gögn, en RSÍ kveðst telja að staða Storytel hafi eingöngu styrkst á þeim sex árum sem liðin eru.
„Þessi sérstaða hefur umtalsverð áhrif á samkeppni og eðlilega verðmyndun á markaði. Birtist hún m.a. í lágum þóknunum til bókaútgefenda og rithöfunda vegna streymishljóðbóka í smáforritum Storytel samstæðunnar,“ segir í erindinu.
Rakið er að rétthafagreiðslur fari nær allar til sænska fyrirtækisins; 50% af nettótekjum fyrir hverja hlustaða mínútu fara til Storytel, hinn helmingurinn skiptist svo þannig að Storyside fær 75% af tekjunum en upprunalegur útgefandi fær 25% (eða 12,5% af heild). Rithöfundar fá oftast 23% af því sem upprunalegi bókaútgefandinn fékk, eða 23% af 12,5%. Það gera 2,875% af heildarnettótekjum fyrir hverja hlustaða mínútu. „Með öðrum orðum heldur Storytel samstæðan eftir u.þ.b. 88% af heildarnettótekjunum,“ segir í erindinu.
Jafnframt eru gerðar athugasemdir við framsetningu efnis hjá Storytel. Eigin efni, sem nefnt er Storytel original, sé gert hæst undir höfði, því næst efni sem útgefið er af Storyside og Lind & Co sem einnig sé í eigu sömu aðila en aftast í röðinni komi efni sem gefið sé út án aðkomu Storytel-samstæðunnar.
Segir í erindi RSÍ að kostnaður við gerð hljóðbóka sé ekki hár í samanburði við aðra kostnaðarliði í hefðbundinni bókaútgáfu. Höfundum og útgefendum sé hins vegar gert illgerlegt að sniðganga Storytel, þar sem slíkt virðist hafa bein áhrif á kynningu efnis í smáforriti þess og þar með hugsanlega hlustun.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu dag