Faxaflóahafnir hafa ekki slegið máli á það tjón sem varð í óveðrinu sem gekk yfir suðvesturhluta landsins fyrir skemmstu, en þar skemmdust m.a. varnargarðar og göngustígar á höfuðborgarsvæðinu. Mest varð þó tjónið á Akranesi þar sem unnið er að lengingu hafnargarðsins.
Í samtali við Morgunblaðið staðfestir Gunnar Tryggvason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, að svo sé. Verktakafyrirtækið Hagtak vinnur að lengingu hafnargarðsins og varð fyrirtækið fyrir tjóni á tækjabúnaði en einnig skaddaðist verkið sjálft á þann veg að út lak efni sem komið hafði verið fyrir að baki stálþiljum sem rekin höfðu verið niður.
Spurður um áætlað fjártjón Faxaflóahafna vegna þessa segist Gunnar ekki geta tjáð sig um það, enda um tryggingamál að ræða.
„Síðan varð tjón á göngustíg við Fiskislóð, en einnig urðu rekstraraðilar fyrir tjóni, Lýsi, Brimrún o.fl., en við vitum ekki hvernig þeir meta sitt tjón,“ segir Gunnar og nefnir að tjón Faxaflóahafna á fyrrnefndum göngustíg sé ekki stórkostlegt, um tugur milljóna á að giska.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag