Íslenska ríkið hefur ekki leitað sátta í skerðingarmáli Gráa hersins gegn því. Telur Grái herinn ríkið brjóta á stjórnarskrárvörðum eignarétti lífeyristaka en málið verður tekið til efnismeðferðar hjá Mannréttindadómstól Evrópu (MDE).
Er málið var tekið fyrir hér á landi féll úrskurður ríkinu í vil, bæði í héraðsdómi og Hæstarétti.
Málshöfðun Gráa hersins er reist á því sjónarmiði að með skerðingu opinberra lífeyrisgreiðslna í hlutfalli við réttindi, sem ellilífeyristakar hafa áunnið sér í lífeyrissjóðum með vinnuframlagi sínu og iðgjöldum, sé gengið gegn stjórnarskrárvörðum eignarrétti lífeyristaka. Telur Grái herinn að skerðingin nemi allt að 56,9% af greiðslum úr lífeyrissjóði.
Í samtali við mbl.is segir Helgi Pétursson, formaður Landssambands eldri borgara, sem Grái herinn heyrir undir, að MDE hafi beðið um svör við þremur spurningum sem varða málið og bæði Grái herinn og ríkið þurfi að svara.
Dómstóllinn veitti ríkinu frest til 11. mars til að leita sátta í málinu. Aðspurður segir Helgi það hafi verið vilji Gráa hersins lengi en ekki raungerst.
„Við erum náttúrulega búin að biðja um það í mörg ár. Getum við ekki bara sest niður og rætt þetta?“
Hann segir nú að lögfræðingar Gráa hersins muni skila inn svörum við þeim spurningum sem MDE leitast eftir og gerir ráð fyrir að ríkið geri hið sama.
Þar sem ekki hefur verið leitað sátta í málinu munu aðilar málsins nú fá 12 vikna frest til þess að skila inn greinargerð þar um.
Í tilkynningu frá Grá hernnum í janúar kom fram að MDE muni afmarka umfjöllun sína við nánar tilgreind álitaefni, þ.e. hvort skerðingarreglurnar frá 2017/18 hafi mismunað ellilífeyristökum eftir því hvort lífeyrisréttindi þeirra voru í séreignar- eða sameignarsjóðum; og/eða með því að ákvarða frítekjumark þeirra sem enn höfðu atvinnutekjur miklu hærra en þeirra sem eingöngu fengu greitt úr lífeyrissjóðum.