Þörf á 200 nýjum lögreglumönnum strax

„Það þarf náttúrulega að fjölga þeim miklu meira. Það þarf að fjölga lögreglumönnum á Íslandi um svona tvö hundruð, ef vel á að vera,“ segir Fjölnir Sæmundsson, formaður Landssambands lögreglumanna í Dagmálum í dag. Hann er þar að svara spurningunni hvað þurfi að fjölga lögregluþjónum mikið. Hann er því næst spurður hvort það þurfi að gerast strax?

„Já. Það þyrftu að vera tvö hundruð fleiri lögreglumenn á Íslandi. Þú tryggir öryggi lögreglumanna með fjöldanum. Ef það koma fjórir á vettvang, í eitthvað þá er miklu minni hætta á að eitthvað komi fyrir. Þegar ég kem einn á vettvang þá hef ég ekki stjórn á aðstæðum. Ég hef alveg lent í því að þurfa að koma einn á vettvang. Svo verð ég bara að bakka út," segir Fjölnir.

„Búinn að heyra þetta svo oft“

Þessi umræða spratt vegna þeirra áforma ríkisstjórnarinnar að fjölga lögreglumönnum á Íslandi um fimmtíu og á sú fjölgun að koma til framkvæmda á þessu ári. Þegar Fjölnir er spurður um hvort að hann hafi trú á því að þetta raungerist, svarar hann. „Þegar maður er búinn að vera lengi í lögreglunni þá er maður búinn að heyra þetta svo oft. Í raun og veru hefur menntuðum lögreglumönnum lítið fjölgað síðasta áratuginn, þrátt fyrir allt. Það eru alltaf um sjö hundruð menntaðir lögreglumenn á landinu.“

Fjölnir segir að ungt fólk sækist ekki eftir því að ganga í lögregluna. Það er ekki séríslenskt vandamál. Sama gildir um hin Norðurlöndin. Vandinn er margslunginn. „Það er gat á fötunni. Við hellum og hellum í, útskrifuðum lögreglumönnum en það lekur út. Við þurfum að finna svar við því, af hverju hættir fólk í lögreglunni? Ég sagði strax þegar ég heyrði talað um fimmtíu. Ef þið viljið fá fimmtíu strax þá þurfið þið að fá fólk til baka inn í lögregluna. Þið þurfið þá að gera eitthvað fyrir lögreglumenn. Auka öryggi þeirra og auka starfsaðstæður. Auðvitað segi ég svo sem formaður stéttarfélags að það þurfi að hækka launin," upplýsir Fjölnir.

Launahækkun í þriðja sæti

Það er áhugavert að heyra formann stéttarfélags setja launahækkanir í þriðja sæti. En það segir líklegast til um hversu aðrir þættir eru aðkallandi.

Með breytingu sem varð á námi lögreglumanna þegar námið var fært á háskólastig, fjölgaði konum í lögreglunni. Að sögn Fjölnis virðast konur frekar tilbúnar til þess að leggja á sig háskólanámið. Með því að fjölga nemendum í lögreglunám óttast Fjölnir að mannavalið verði ekki eins og þeir kjósa. „Við erum ekki endilega að fá þá í lögregluna sem við viljum fá.“

Viðtalið við Fjölni Sæmundsson geta áskrifendur nálgast með að smella á hlekkinn hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert