Tillagan meira í takti við sjónarmið lífeyrissjóða

Bjarni hafði lagt til slit ÍL-sjóðs en nú er lagt …
Bjarni hafði lagt til slit ÍL-sjóðs en nú er lagt til að greiða kröfuhöfum yfir 650 milljarða króna með útgáfu skuldabréfa og með öðrum leiðum. Samsett mynd

Framkvæmdastjóri Gildis segir að tillaga ÍL-sjóðs og fjármála- og efnahagsráðuneytisins endurspegli „sterka“ stöðu skuldabréfaeigenda í málinu. Tillagan sé enn fremur meira í takti við sjónarmið lífeyrissjóða heldur en það sem Bjarni Benediktsson, fyrrverandi fjármála- og efnahagsráðherra, hafði lagt upp með.

„Við vorum allir sjóðirnir að fá í morgun fyrstu tillögu sem kemur frá ráðgjöfunum. Þannig að við eigum eftir að leggja mat á þá tillögu sem er fram komin,“ segir Davíð Rúdólfsson, framkvæmdastjóri Gildis í samtali við mbl.is.

ÍL-sjóður og ráðuneytið sendu frá sér tilkynningu í morgun þar sem lagt er til að ÍL-sjóður og ríkið af­hendi kröfu­höf­um sín­um skulda­bréf upp á 540,4 millj­arða króna.

Kröfu­haf­arn­ir fengju einnig önn­ur verðbréf að verðmæti 38 millj­arða króna, reiðufé í gjald­eyri að verðmæti 55 millj­arða króna og 18 millj­arða í ís­lensk­um krón­um.

Upp­hæðin myndi því nema sam­tals 651,4 millj­örðum ef kröfuhafarnir (lífeyrissjóðir) samþykkja tillöguna.

Tillagan er lögð fram eftir vinnu 18 ráðgjafa líf­eyr­is­sjóða og viðræðunefnd fjár­málaráðherra.

„Ekki útgangspunkturinn í þessari tillögugerð“

Bjarni Benediktsson hafði sem fjármálaráðherra lagt fram áformaskjal um fram­lagn­ingu laga­frum­varps á Alþingi sem hefði heim­ilað slit og upp­gjör ÍL-sjóðs. Lífeyrissjóðirnir tóku ekki vel í þá tillögu en Bjarni sagði mark­miðið vera að draga úr tjóni skatt­greiðenda og kom­andi kyn­slóða um leið og skuld­bind­ing­ar rík­is­sjóðs væru virt­ar.

Spurður hvort að, út frá hans sjónarhóli, þessi tillaga sé betri en það sem Bjarni Benediktsson hafði lagt áherslu á segir Davíð:

„Já, ég held að það sé alveg óhætt að segja að uppleggið sem slíkt er klárlega miklu meira í takti við þau sjónarmið sem lífeyrissjóðirnir höfðu varðandi stöðu mála í upphafi. Og endurspeglar þá sterku stöðu sjóðirnir hafa allan tímann haldið fram að skuldabréfaeigendur hefðu í þessu máli. Að sama skapi er tiltölulega augljóst að útgangspunkturinn sem lagt var af stað með af hálfu fjármálaráðuneytisins [undir stjórn Bjarna], hann er ekki útgangspunkturinn í þessari tillögugerð,“ segir Davíð.

Tillaga sem þarf að rýna vel

ÍL-sjóður varð til við upp­skipt­ingu Íbúðalána­sjóðs og var stofnaður með lög­um sem tóku gildi 31. des­em­ber 2019. Var hann stofnaður með það að mark­miði að lág­marka áhættu rík­is­sjóðs í tengsl­um við úr­vinnslu og upp­gjör á upp­söfnuðum fjár­hags­vanda Íbúðalána­sjóðs.

Til­lög­urn­ar verða lagðar fyr­ir fund skulda­bréfa­eig­enda til samþykkt­ar, en samþykki 75% kröfu­hafa þarf til. Davíð segir að reiknað sé með fundi 10. apríl.

„Þetta er stórt mál, háar fjárhæðir og að einhverju leyti tillaga sem þarf að rýna vel. Það mun örugglega taka sjóðina einhverja daga að mynda sér afstöðu,“ segir Davíð.

Verði til­lög­urn­ar samþykkt­ar mun fjár­mála- og efna­hags­ráðherra í fram­haldi sækja heim­ild til Alþing­is til að ljúka upp­gjör­inu með frum­varpi til fjár­auka­laga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert