Varar við alvarlegum aukaverkunum svefnlyfja

Alma Möller heilbrigðisráðherra.
Alma Möller heilbrigðisráðherra. mbl.is/Karítas

„Þetta gengur út á það að efna til vitundarvakningar um svefnlyf og hvað það er í rauninni takmarkað gagn af langtíma svefnlyfjanotkun,“ segir Alma D. Möller heilbrigðisráðherra.

Hún setti í dag af stað verkefnið Vitundarvakning og valdefling eldra fólks um notkun svefnlyfja.

Verkefnið er rekið af Önnu Birnu Almarsdóttur sem ræddi við Morgunblaðið um verkefnið um helgina.

Í samtali við mbl.is segir Alma fyrirmynd verkefnisins koma frá Kanada þar sem 46% eldri borgara sem notuðu svefnlyf annað hvort minnkuðu notkun sína verulega eða hættu.

Geta aukið hættu á heilabilun og lungnabólgu

Hún segir svefnlyf að meðaltali stytta tímann sem það tekur fólk að sofna um sjö mínútur og þá sefur fólk að jafnaði fimmtán mínútum lengur þegar lyfin eru tekin til lengri tíma. Því sé takmarkað gagn af þeim.

Þá fylgja þeim einnig aukaverkanir þar sem eldra fólk er í sérstakri hættu og nefnir heilbrigðisráðherrann að lyfin auki líkur t.a.m. á byltum og beinbrotum.

„[...] og þau valda skertu jafnvægi, skertri einbeitingu og minni og geta aukið hættu á heilabilun og lungnabólgu. Þetta höldum við að fólk sé almennt ekki meðvitað um.“

Íslendingar hafi kannski ofurtrú á lyfjum

Komið var inn á svefnlyfjanotkun Íslendinga í viðtali Morgunblaðsins um helgina en hún þykir mikil við sumar nágrannaþjóðir okkar og segir Alma það hafa verið vitað lengi.

„Við erum með nærri því 100% meiri notkun en Norðmenn og sexfalt meira en Danir. Notkun á svefnlyfjum er mun almennari hér.“

Hvað kemur til, er eitthvað vitað af hverju?

„Nei, ég þori ekki að segja til um það. En ég held bara að heilt yfir höfum við mikla trú á lyfjum, kannski stundum ofurtrú á lyfjum. Ég held líka að það hafi skort önnur úrræði í gegnum tíðina eins og sálfræðiaðstoð og þessar hugrænu atferlismeðferðir sem að gagnast prýðilega við svefnleysi.

Síðan er kannski ekkert mjög langt síðan þessi vitneskja, annars vegar um hvað það er takmarkað gagn af langtímanotkun, og hins vegar um skaðsemina, kom fram. Og á sama tíma hefur okkur orðið ljóst mikilvægi góðs svefns,“ segir Alma og bendir á að eitt sinn hafi það verið talin dygð að sofa lítið. Góður svefn sé hins vegar undirstaða góðrar heilsu og vellíðanar.

Þarf að minna skammtinn yfir lengri tíma. 

Svefnlyf geta þó mörg hver verið ávanabindandi og segir Alma að þörf sé á að minnka skammt þeirra yfir lengri tíma þegar fólk ætlar að hætta að neyta þeirra.

Upplýsingar um hvernig má hætta á svefnlyfjum má finna í öðrum af tveimur bæklingum sem hafa verið gefnir út á vegum verkefnisins. Einnig bendir Alma á að hægt sé að leita eftir upplýsingum frá heilbrigðisstarfsfólki og í apótekum.

Hægt er að kynna sér bæklingana nánar hér en einnig fást ókeypis eintök í apótekum og á heilsugæslustöðvum um allt land.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert