Sex sveitarfélög af 64 sveitarfélögum uppfylltu allar reglur um stoð- og stuðningsþjónustu samkvæmt niðurstöðum frumkvæðisathugunar Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála sem birtar voru í gær.
Niðurstöðurnar sýna að reglur um notendasamninga voru til staðar hjá einungis 24 sveitarfélögum, aðeins 16 höfðu sett sér reglur um frístundaþjónustu og einungis sex sveitarfélög höfðu í gildi allar þær reglur sem athugun stofnunarinnar náði til og höfðu þær uppfærðar í samræmi við gildandi lög. Voru það Akureyrarbær, Eyjafjarðarsveit, Grýtubakkahreppur, Hörgársveit, Reykjavíkurborg og Svalbarðsstrandarhreppur.
Athygli vekur að sjö sveitarfélög af 64 höfðu ekki sett sér reglur um stuðningsþjónustu og að eitt var ekki með neinar af reglunum í gildi.
Ekki er tilgreint í skýrslunni hvaða sveitarfélög það eru sem áttu í hlut.
Þess má geta að samkvæmt upplýsingum frá sveitarfélaginu sem var ekki með neinar af reglunum í gildi hafði samningur nýlega fallið úr gildi við annað sveitarfélag um þjónustuna.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag