Á sjötta hundrað undirskriftir og tillaga um frestun

Félagsheimilið Rípurhreppi. Samþykkt hefur verið í byggðarráði Skagafjarðar að setja …
Félagsheimilið Rípurhreppi. Samþykkt hefur verið í byggðarráði Skagafjarðar að setja félagsheimilið í söluferli auk félagsheimilisins Skagasels. Ljósmynd/Ferðalag.is

Undirskriftarlisti verður afhendur byggðarráði Skagafjarðar fyrir fund þess í vikunni með á sjötta hundrað undirskrifta gegn áformum sveitarfélagsins um sölu á félagsheimilum.

Sveitarstjórn Skagafjarðar telur skynsamlegt að selja hlut sveitarfélagsins í einhverjum þeirra tíu félagsheimila sem eru ýmist í eigu þess að öllu eða verulegu leyti og þegar hefur verið samþykkt í byggðarráði að setja tvö þeirra í opið söluferli, félagsheimili Rípurhrepps og félagsheimilið Skagasel, en fundargerð byggðarráðs á eftir að fara fyrir sveitarstjórn.

Einar Eðvald Einarsson, varaformaður byggðarráðs, sagði í ágúst 2023 í samtali við mbl.is skýrt markmið að fækka félagsheimilum í eigu sveitarfélagsins en á þeim tíma var hann formaður byggðarráðs. Núna er Einar forseti sveitarstjórnar.

Segir hann í samtali við mbl.is að tillaga sé komin fram fyrir byggðarráð frá Álfhildi Leifsdóttur, bæjarfulltrúa VG og óháðra, um að fresta því að setja félagsheimilin í söluferli. Auk byggðarráðs fundar sveitarstjórn í vikunni.

Einar á síður von á því að tekin verði endanleg ákvörðun um framtíð félagsheimilanna á fundunum í vikunni og þá segir hann að tillaga Álfhildar um frestun áformanna fari ekki fyrir sveitarstjórn fyrr en á fundi um miðjan apríl.

Einar bendir einnig á að fundarsköp geri ráð fyrir ýmsum afbrigðum eins og breytingartillögum og frávísunartillögum. Það verði bara að taka á því á hverjum og einum fundi hvert sú umræða leiði.

Segir hann enga skynsemi í því fyrir eitt sveitarfélag að eiga tíu félagsheimili og tekur skýrt fram að aldrei hafi staðið til að selja öll félagsheimilin.

„Umræðan hefur aldrei verið öðruvísi en að lágmarki muni sveitarfélagið eiga tvö áfram, það er Miðgarð og Höfðaborg.“

Eignardómsmál fram undan

Sveitarfélagið Skagafjörður hefur höfðað eignardómsmál fyrir héraðsdómi Norðurlands vestra vegna eignarréttar á þremur félagsheimilanna: Ketiláss, Höfðaborgar og Árgarðs. Krefst sveitarfélagið þess að því verði dæmdur eignarréttur að fasteignunum þremur.

Engir þinglýstir eigendur eru að Ketilási og Árgarði en Skagafjörður er skráður umráðandi og eignarhlutfallið 100%.

Eignarheimild að Höfðaborg er aftur að finna í leigusamningi frá 1975. Samkvæmt honum eru eigendur upptaldir Hofsóshreppur, Hofshreppur og Fellshreppur ásamt Verkalýðsfélaginu Ársæli, Kvenfélaginu Öldunni, Söngfélaginu Hörpu og Ungmennafélögunum Höfðstrendingi og Geisla. Hrepparnir þrír hafa síðar sameinast og orðið að sveitarfélaginu Skagafirði.

Félagsheimilin Héðinsminni og Melsgil á sveitarfélagið einnig í sameign með kvenfélögum og fleiri félögum.

Félagsheimili Rípurhrepps, félagsheimilin Skagasel, Ljósheimar og Bifröst auk Menningarhússins Miðgarðs eru í 100% þinglýstri eign sveitarfélagsins.

Félagsheimilið Ketilás í Fljótum. Sveitarfélagið Skagafjörður hefur höfðað eignardómsmál fyrir …
Félagsheimilið Ketilás í Fljótum. Sveitarfélagið Skagafjörður hefur höfðað eignardómsmál fyrir héraðsdómi Norðurlands vestra vegna eignarréttar á félagsheimilin auk félagsheimilanna Höfðaborg og Árgarði. Ljósmynd/Brúnastaðir

„Ekki löstur að hlusta á íbúa“

Álfhildur Leifsdóttir segist í samtali við mbl.is vona að tillaga hennar hljóti hljómgrunn. Segir hún andstöðu við áform sveitarfélagsins og meðal annars hafi Kvenfélag Rípurhrepps sent frá sér ályktun. Þar á bæ óttast konur að félagið leggist af ef það missi þennan samastað sinn. Kvenfélagið er elsta kvenfélagið hér á landi.

„Það er mín von að aðrir kjörnir fulltrúar sjái sér fært að hlusta á íbúa og breyta sínum áformum. Þau ættu þá hrós skilið. Það er ekki löstur að hlusta á íbúa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert