Storytel segir ásakanir Rithöfundasambands Íslands (RSÍ) byggðar á gömlum gögnum og ranghugmyndum. Þá sé mikilvæg staðreynd að meirihluti samninga fyrirtækisins sé við útgefendur, ekki rithöfunda.
Greint hefur verið frá að RSÍ hafi sent erindi til Samkeppniseftirlitsins (SKE) vegna hugsanlegrar misnotkunar á markaðsráðandi stöðu hljóðbókaveitunnar Storytel á íslenskum bókamarkaði.
Var í erindinu vísað til markaðsgreiningar SKE frá 2019 þar sem fram kemur að Storyside, útgáfuarmur Storytel, hafi um 80-85% hlutdeild á hljóðbókamarkaði. Storytel hafi svo enn sterkari stöðu á markaði fyrir smásölu hljóðbóka, eða um 95-100% hlutdeild. Ekki liggja fyrir nýrri gögn, en RSÍ kveðst telja að staða Storytel hafi eingöngu styrkst á þeim sex árum sem liðin eru.
„Það er mjög óheppilegt að þessar ásakanir skuli byggðar á gömlum gögnum og ranghugmyndum. Okkur hafa ekki borist kvörtun frá Samkeppniseftirlitinu, en ef hún berst munum við aðstoða þau eftir bestu getu, segir Lísa Björk Óskarsdóttir, framkvæmdastjóri Storytel á Íslandi,“ í skriflegu svari til mbl.is.
Hún segir tölur SKE sex ára gamlar og ekki sýna heildarmyndina.
„Ef við setjum þetta í samhengi, þegar Storytel hóf starfsemi á Íslandi var hljóðbókaútgáfa hér á landi afar takmörkuð og útgefendur óvissir um viðbrögð neytenda. Því bauðst Storytel til að taka yfir ákveðin hljóðbóka- réttindi og gefa út í eigin útgáfu. Því var hlutdeild okkar sem hljóðbókaútgefandi hér á landi hærri á þeim tíma.“
Síðan þá hafi margt breyst, neytendur hafi tekið hljóðbókum fagnandi, notað þær samhliða prentuðum bókum og margir jafnvel uppgötvað bækur upp á nýtt sem afþreyingu.
Segir Lísa Storytel hafa verið lykilaðila í uppbyggingu hljóðbókamarkaðarins hér á landi og hvati fyrir þróun hans sem sé „jákvætt framfararskref fyrir hagkerfi bókaútgáfu á Íslandi.“
Í dag fjármagni flestir útgefendur sínar eigin hljóðbækur og því hafi hlutfall Storytel af útgáfu hljóðbóka á íslensku minnkað umtalsvert.
„Við virðum skoðanir höfunda en það er einnig mikilvæg staðreynd að meirihluti samninga okkar er við útgefendur en ekki rithöfunda, þar sem höfundar framselja yfirleitt hljóðbókaréttindi sín til þeirra og Storytel er ekki aðili að samningi milli rithöfunda og útgefenda. En þegar útgefendur framleiða og dreifa eigin hljóðbókum hjá okkur eru tölurnar sem birtar voru í fréttinni [í gær] ekki réttar.
Þessir samningar eru auðvitað trúnaðarmál og því ekki hægt að upplýsa nánar um samningsatriði. Enn fremur hefur markaðurinn tekið miklum breytingum á síðustu sex árum. Sem dæmi sýna gögnin okkar greinilega að notendur hika ekki að skipta á milli efnis á íslensku og ensku eftir því hvað hentar þeim best hverju sinni. Í grunninn erum við að keppa um tíma fólks í umhverfi þar sem fjölbreyttir afþreyingarkostir eru í boði sem ná langt út fyrir landamærin. Keppinautar okkar eru ekki eingöngu önnur hljóðbókaþjónusta heldur einnig alls konar afþreyingarþjónusta sem nýtt er sem staðgönguvara.“