Töluverð jarðskjálftavirkni hefur verið við kvikuganginn í Sundhnúkagígaröðinni í nótt og snemma í morgun.
„Virknin síðustu daga hefur verið að aukast og það hafa mælst 14 skjálftar síðan í gærkvöldi,“ segir Sigríður Kristjánsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is en fjórir jarðskjálftar mældust á rúmlega hálftíma fyrr í morgun sem áttu upptök rúman einn kílómetra norðaustur af Sundhnúk. Um smáskjálfta var að ræða og var sá stærsti 0,7 að stærð.
Hún segir að það sé viðbúið að virknin sé að aukast jafnt og þétt sem muni þá að öllum líkindum enda með kvikuhlaupi eða jafnvel eldgosi.
„Ég er búin að vera mjög spennt í nótt en það dró ekki til tíðinda svo við verðum bara að bíða og sjá til hvað gerist,“ segir Sigríður.
Síðasta eldgosi á Sundhnúkagígaröðinni lauk 9. desember og goshléið er orðið það lengsta síðan goshrinan við gígaröðina hófst með eldsumbrotum í desember 2023. Sjö eldgos hafa orðið á þessum tíma.