Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir að hótanir um tollastríð séu að rjúfa framleiðslukeðjur erlendis og hækka kostnað og það gæti gerst að aftur fari að sjást hækkandi verðbólga erlendis líkt og gerðist eftir faraldurinn, þegar allar framleiðslukeðjur fóru úr lagi. Slíkar hækkanir gætu auk þess smitast til Íslands í formi hærra verðs á vörum sem fluttar eru inn.
„Bendir margt til að verðbólga sé að hækka úti,“ sagði Ásgeir á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar, í morgun þegar hann svaraði spurningu Vilhjálms Árnasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Hafði Vilhjálmur bent á að verðbólga hefði hækkað í Noregi úr 2,3% upp í 3,6% og það væri meðal annars drifið af hækkandi framleiðslu- og launakostnaði innanlands. Spurði hann hvort búast mætti við svipuðu hér á landi, sérstaklega í ljósi nýgerðra kjarasamninga.
„Það sem ég heyri úti, bæði í Bandaríkjunum og Evrópu, er að seðlabankarnir eru farnir að óttast að geta ekki lækkað meira [stýrivexti]. Í Bandaríkjunum eru þeir farnir að velta fyrir sér að seðlabankinn fari að hækka aftur vexti,“ sagði Ásgeir.
Benti hann þó á að staðan í Evrópu og á öðrum Norðurlöndum væri öðruvísi en á Íslandi. Þar hefði verið lítill sem enginn hagvöxtur eftir faraldurinn, en hér á landi hafi verið 20% hagvöxtur árin 2021-2023 og Ísland þegar endurheimt hagvöxtinn frá því fyrir faraldur.
Þannig nefndi Ásgeir að Svíþjóð hefði í raun verið í niðursveiflu og norska og sænska krónan fallið nokkuð. Þá hefði kaupmáttur launa víða um Evrópu, öfugt við á Íslandi, lækkað verulega og launþegar því ekki fengið launahækkanir í takt við verðbólguna sem gekk yfir á undanförnum árum. Sagði hann ekki óalgengt að um væri að ræða 5-10% minni kaupmátt.
Á Íslandi hefði launafólk að sögn Ásgeirs hins vegar fengið verðbólguna bætta og gott betur en það. Sagði Ásgeir að fram undan gætu verið launahækkanir í Evrópu, en þar væri nú vinnuaflsskortur og ekki ólíklegt að fólk myndi reyna að sækja kjarabætur eftir síðustu ár. Stutta svarið væri því að verðbólguhorfur væru að versna úti.
Hækki verðbólgan úti getur það leitt til kostnaðarhækkana hér á landi, sérstaklega á innfluttum vörum og nefndi Ásgeir bíla og þvottavélar sem dæmi um vörur sem Íslendingar þyrftu að flytja inn og gætu orðið fyrir þessum áhrifum.