Bjarni: Taldi bestu leiðina alltaf að leita samninga

Bjarni Benediktsson, fyrrverandi fjármálaráðherra og forsætisráðherra.
Bjarni Benediktsson, fyrrverandi fjármálaráðherra og forsætisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Bjarni Bene­dikts­son, fyrr­ver­andi fjár­málaráðherra og for­sæt­is­ráðherra, seg­ir ein­kenni­legt að tala um „leið Bjarna“ í tengsl­um við umræðu um mál­efni ÍL-sjóðs (gamla Íbúðalána­sjóðs). Hann hafi sjálf­ur talið samn­inga­leiðina far­sæl­ustu lausn­ina.

Þetta kem­ur fram í færslu Bjarna á Face­book þar sem hann bregst við um­fjöll­un um mál­efni ÍL-sjóðs.

Þegar Bjarni var fjár­málaráðherra sagðist hann horfa til þess að setja ÍL-sjóð í slitameðferð ef ekki tæk­ist að fá kröfu­hafa sjóðsins til þess að taka hann yfir.

Í morg­un sagði Ásgeir Jóns­son seðlabanka­stjóri á opn­um fundi efna­hags- og viðskipta­nefnd­ar Alþing­is að hann teldi frétt­ir gær­dags­ins um mögu­legt sam­komu­lag á milli rík­is og líf­eyr­is­sjóða um upp­gjör á ÍL-sjóði betri niður­stöðu en þá að fara með sjóðinn í þrot líkt og stefnt hafi verið að áður með til­heyr­andi áhættu.

Greindi mbl.is frá þess­um um­mæl­um Ásgeirs und­ir fyr­ir­sögn­inni „Ásgeir: Betri niðurstaða en leið Bjarna“.

Samn­inga­leið frá upp­hafi far­sæl­ust

Bjarni greip fljótt til penna og svaraði með færslu á Face­book þar sem hann sagði um ein­kenni­leg­ar full­yrðing­ar að ræða. „Það verður von­andi ljóst þeim sem hafa fyr­ir því að kynna sér málið að samn­inga­leið í þessu máli var frá upp­hafi að mínu mati far­sæl­ust, þótt það hafi tekið lang­an tíma að koma þeim viðræðum af stað enda hags­mun­ir mikl­ir á alla kanta,“ seg­ir í færslu hans.

Tek­ur hann jafn­framt fram að frum­varp um laga­heim­ild­ir til að slíta sjóðum sem ÍL-sjóði ætti að hans mati að koma fram óháð niður­stöðu máls ÍL-sjóðs. „Það er mik­il­vægt til framtíðar, jafn­vel þótt samið verði um upp­gjör og slit ÍL-sjóðs, að lög­festa þær regl­ur sem er að finna í frum­varp­inu,“ seg­ir Bjarni.

Góð niðurstaða samn­inga­nefnd­ar­inn­ar

Bjarni seg­ist fagna niður­stöðu samn­inga­nefnd­ar­inn­ar sem kynnt var í gær og að ófor­svar­an­legt hafi verið annað en að setja það á dag­skrá og fá lausn þar á. Far­sæl lausn muni bæta greiðsluflæði rík­is­sjóðs, lækka skulda­stöðu A-hluta rík­is­sjóðs og lækka rík­is­ábyrgðir um 88%. „Það var þá til ein­hvers að setja málið af stað sýn­ist mér,“ seg­ir Bjarni að lok­um og end­ur­birt­ir svo tveggja ára gamla færslu um mál­efni ÍL-sjóðs frá því skömmu eft­ir að hann til­kynnti hug­mynd­ir sín­ar um upp­gjör sjóðsins.

Vís­ar hann í eldri færsl­unni til þess að í raun séu bara þrír slæm­ir val­kost­ir í stöðunni þar sem upp­safnað muni sjóður­inn vanta um 450 millj­arða um­fram eign­ir árið 2044.

Þrír val­kost­ir

Fyrsti val­kost­ur­inn hafi verið að gera ekki neitt og senda skuldapakk­ann á þáver­andi rík­is­stjórn og lands­menn síðar meir.

Næsti val­kost­ur sé að grípa til ráðstaf­ana, fá upp­gjör á skuld­um og ábyrgð rík­is­ins og greiða kröfu­höf­um að fullu höfuðstól og áfallna vexti og koma í veg fyr­ir að vand­inn haldi áfram að vinda upp á sig. Seg­ir Bjarni lyk­il­atriðið hér vera að um ein­falda ábyrgð rík­is­ins sé að ræða sem nái til höfuðstóls og áfall­inna vaxta.

Að lok­um sé síðasti kost­ur­inn, sem hann hafi mælt með, og það sé að taka upp viðræður við kröfu­hafa með það að mark­miði að ná sam­komu­lagi um fram­vind­una. „Eft­ir at­vik­um get­ur það orðið grunn­ur að frum­varpi um slit sjóðsins sem færi fyr­ir Alþingi og myndi enda með fullnaðar­upp­gjöri miðað við stöðuna eins og hún er í dag,“ sagði í færsl­unni.

Líf­eyr­is­sjóðir brugðust illa við

Kom færsla Bjarna fyr­ir tveim­ur árum í kjöl­far þess að líf­eyr­is­sjóðir brugðust illa við hug­mynd­um hans um að slíta sjóðnum ef ekki tæk­ist að semja á rúm­lega ein­um mánuði, sem voru tíma­mörk­in sem sett voru fram. Þannig sagði Davíð Rúdólfs­son, for­stöðumaður eign­a­stýr­ing­ar Gild­is og nú­ver­andi fram­kvæmda­stjóri sjóðsins, á þeim tíma að Bjarni væri að setja málið fram á þann hátt að hann væri að gera lands­mönn­um greiða, en um sama tíma væri hann að „reyna að fara í vasa al­menn­ings. Þetta er til­raun til þess að ganga í sparnað al­menn­ings, sparnað sem ligg­ur í líf­eyr­is­sjóðum og verðbréfa­sjóðum sem eru í eigu lands­manna.“

Mátu viðmæl­end­ur Morg­un­blaðsins á þeim tíma það sem svo að líf­eyr­is­sjóðir lands­ins hafi í raun orðið fyr­ir gríðarlegri eigna­upp­töku með ákvörðun Bjarna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert