Bjarni Benediktsson, fyrrverandi fjármálaráðherra og forsætisráðherra, segir einkennilegt að tala um „leið Bjarna“ í tengslum við umræðu um málefni ÍL-sjóðs (gamla Íbúðalánasjóðs). Hann hafi sjálfur talið samningaleiðina farsælustu lausnina.
Þetta kemur fram í færslu Bjarna á Facebook þar sem hann bregst við umfjöllun um málefni ÍL-sjóðs.
Þegar Bjarni var fjármálaráðherra sagðist hann horfa til þess að setja ÍL-sjóð í slitameðferð ef ekki tækist að fá kröfuhafa sjóðsins til þess að taka hann yfir.
Í morgun sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis að hann teldi fréttir gærdagsins um mögulegt samkomulag á milli ríkis og lífeyrissjóða um uppgjör á ÍL-sjóði betri niðurstöðu en þá að fara með sjóðinn í þrot líkt og stefnt hafi verið að áður með tilheyrandi áhættu.
Greindi mbl.is frá þessum ummælum Ásgeirs undir fyrirsögninni „Ásgeir: Betri niðurstaða en leið Bjarna“.
Bjarni greip fljótt til penna og svaraði með færslu á Facebook þar sem hann sagði um einkennilegar fullyrðingar að ræða. „Það verður vonandi ljóst þeim sem hafa fyrir því að kynna sér málið að samningaleið í þessu máli var frá upphafi að mínu mati farsælust, þótt það hafi tekið langan tíma að koma þeim viðræðum af stað enda hagsmunir miklir á alla kanta,“ segir í færslu hans.
Tekur hann jafnframt fram að frumvarp um lagaheimildir til að slíta sjóðum sem ÍL-sjóði ætti að hans mati að koma fram óháð niðurstöðu máls ÍL-sjóðs. „Það er mikilvægt til framtíðar, jafnvel þótt samið verði um uppgjör og slit ÍL-sjóðs, að lögfesta þær reglur sem er að finna í frumvarpinu,“ segir Bjarni.
Bjarni segist fagna niðurstöðu samninganefndarinnar sem kynnt var í gær og að óforsvaranlegt hafi verið annað en að setja það á dagskrá og fá lausn þar á. Farsæl lausn muni bæta greiðsluflæði ríkissjóðs, lækka skuldastöðu A-hluta ríkissjóðs og lækka ríkisábyrgðir um 88%. „Það var þá til einhvers að setja málið af stað sýnist mér,“ segir Bjarni að lokum og endurbirtir svo tveggja ára gamla færslu um málefni ÍL-sjóðs frá því skömmu eftir að hann tilkynnti hugmyndir sínar um uppgjör sjóðsins.
Vísar hann í eldri færslunni til þess að í raun séu bara þrír slæmir valkostir í stöðunni þar sem uppsafnað muni sjóðurinn vanta um 450 milljarða umfram eignir árið 2044.
Fyrsti valkosturinn hafi verið að gera ekki neitt og senda skuldapakkann á þáverandi ríkisstjórn og landsmenn síðar meir.
Næsti valkostur sé að grípa til ráðstafana, fá uppgjör á skuldum og ábyrgð ríkisins og greiða kröfuhöfum að fullu höfuðstól og áfallna vexti og koma í veg fyrir að vandinn haldi áfram að vinda upp á sig. Segir Bjarni lykilatriðið hér vera að um einfalda ábyrgð ríkisins sé að ræða sem nái til höfuðstóls og áfallinna vaxta.
Að lokum sé síðasti kosturinn, sem hann hafi mælt með, og það sé að taka upp viðræður við kröfuhafa með það að markmiði að ná samkomulagi um framvinduna. „Eftir atvikum getur það orðið grunnur að frumvarpi um slit sjóðsins sem færi fyrir Alþingi og myndi enda með fullnaðaruppgjöri miðað við stöðuna eins og hún er í dag,“ sagði í færslunni.
Kom færsla Bjarna fyrir tveimur árum í kjölfar þess að lífeyrissjóðir brugðust illa við hugmyndum hans um að slíta sjóðnum ef ekki tækist að semja á rúmlega einum mánuði, sem voru tímamörkin sem sett voru fram. Þannig sagði Davíð Rúdólfsson, forstöðumaður eignastýringar Gildis og núverandi framkvæmdastjóri sjóðsins, á þeim tíma að Bjarni væri að setja málið fram á þann hátt að hann væri að gera landsmönnum greiða, en um sama tíma væri hann að „reyna að fara í vasa almennings. Þetta er tilraun til þess að ganga í sparnað almennings, sparnað sem liggur í lífeyrissjóðum og verðbréfasjóðum sem eru í eigu landsmanna.“
Mátu viðmælendur Morgunblaðsins á þeim tíma það sem svo að lífeyrissjóðir landsins hafi í raun orðið fyrir gríðarlegri eignaupptöku með ákvörðun Bjarna.