Háholt selt: Meðferðarheimili slegið út af borðinu

Háholt hefur verið selt hæstbjóðanda, með fyrirvara um fjármögnun.
Háholt hefur verið selt hæstbjóðanda, með fyrirvara um fjármögnun. Skjáskot af fasteignavef mbl.is

Byggðarráð Skagafjarðar hefur tekið kauptilboði í Háholt, þar sem áður var rekið meðferðarheimili fyrir börn og unglinga með fjölþættan vanda. Kauptilboðið var samþykkt með fyrirvara um fjármögnun. 

Það er því ljóst að hugmynd sem Jón Gnarr, þingmaður Viðreisnar, hefur talað fyrir, um að opna Háholt aftur sem meðferðarheimili, hefur alveg verið slegin út af borðinu.

Sveitarstjóri Skagafjarðar segir að frá því í nóvember hafi ítrekað verið haft samband við mennta- og barnamálaráðuneytið, sem og Barna- og fjölskyldustofu og bent á að þarna væri húsnæði sem hentaði vel fyrir meðferðarheimili. 

Hann segir að Skagafjörður hafi verið leiðandi sveitarfélag bæði í málefnum fatlaðs fólks og á sviði barnaverndar, og að fjölmargt fagmenntað fólk búi í sveitarfélaginu.

Svar barst að lokum frá ráðuneytinu í síðustu viku, á þá leið að Háholt hentaði ekki.

Gagntilboð gert eftir svar frá ráðuneytinu

Jón vildi að það yrði kannað af alvöru hvort nýta mætti Háholt undir meðferðarheimili til að bregðast við því úrræðaleysi sem blasað hefur við í málefnum barna með fjölþættan vanda. Húsnæðið er byggt sem meðferðarheimili en því var lokað árið 2017 og hafði staðið autt um tíma áður en það var selt. Síðustu árin var þar öryggisvistun fyrir börn.

Þá sagði innanbúðarmaður á Stuðlum í samtali við mbl.is í síðustu viku að eina raunhæfa lausnin væri að flytja flytja erfiðustu drengina sem væru á Stuðlum í langtímaúrræði fjarri höfuðborginni, meðal annars til að draga úr aðgengi að fíkniefnum.

„Við vorum ítrekað búin að senda á ráðuneytið og Barna- og fjölskyldustofu og benda þeim á þetta. Bæði þegar við vorum að undirbúa fjárhagsáætlun og segja þeim að þetta hús færi trúlega á sölu og svo áður en við settum það á sölu. Svo fengum við á miðvikudaginn skeyti frá ráðuneytinu sem taldi þetta ekki henta,“ segir Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri í Skagafirði, í samtali við mbl.is.

Nokkur tilboð höfðu borist í Háholt en þeim hafði verið hafnað. Eftir að svar barst loks frá ráðuneytinu var ákveðið að gera hæstbjóðanda gagntilboð, sem hann tók fyrir helgi.

„Voðalega skrýtið að slengja þessu fram“

Í samtölum við mbl.is hafa bæði forstjóri Barna- og fjölskyldustofu og mennta- og barnamálaráðherra sagt að Háholt henti ekki, meðal annars vegna fjarlægðar frá höfuðborgarsvæðinu. Hafa þau í því samhengi talað um að erfitt geti reynst að fá fagfólk og sérfræðinga til starfa á þessu svæði.

Sigfúsi þykja það athyglisverðar fullyrðingar í ljós þess að enginn frá ráðneytinu eða Barna- og fjölskyldustofu hafi sett sig í samband við sveitarfélagið eða kynnt sér aðstæður með neinum hætti.

„Við sveitarfélagið Skagafjörður erum leiðandi, bæði í málefnum fatlaðs fólks hérna á Norðurlandi vestra og barnavernd á Norðurlandi vestra og Fjallabyggð. Við erum með ótal sérfræðinga, bæði þroskaþjálfa, félagsfræðinga og fólk með alls kyns menntun. Mér finnst voðalega skrýtið að slengja þessu fram án þess að kynna sér málin,“ segir Sigfús.

„Það er með ólíkindum að börn skuli vera vistuð í fangaklefum í Hafnarfirði þegar þessu húsnæði var breytt árið 2014 til að uppfylla nákvæmlega þessar kröfur,“ segir hann jafnframt, en farið var í miklar endurbætur á Háholti árið 2014 til að uppfylla kröfur um öryggisvistun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert