Líkið sagt hafa fundist í Gufunesi

Frá aðgerðum lögreglu í Kópavogi í dag. Konu er enn …
Frá aðgerðum lögreglu í Kópavogi í dag. Konu er enn leitað. mbl.is/Karítas

Karlmaður fannst látinn í Gufunesi í Grafarvogi í morgun. Málið er sagt tengjast rannsókn lögreglunnar á Suðurlandi á manndrápsmáli.

DV hefur eftir heimildum sínum að líkið hafi fundist í Gufuneskirkjugarði.

Ríkisútvarpið segir aftur á móti að líkið hafi fundist á leikvellinum í Gufunesi.

Í umfjöllun DV segir að maðurinn hafi verið á sextugsaldri og að miklir áverkar hafi verið á líki hans er það fannst.

Sex hafa verið handteknir vegna málsins en eins er enn leitað. 

Sagt tengjast handrukkun

Í umfjöllun DV segir að um handrukkun hafi verið að ræða þar sem maðurinn er sagður hafa neitað að millifæra mikið fé inn á annan mann. 

Lögreglan á Suðurlandi tilkynnti í dag að hafin væri rannsókn á andláti karlmanns sem lést snemma í morgun. Áverkar á honum benda til þess að andlátið hafi borið að með saknæmum hætti. 

Sérsveit ríkislögreglustjóra aðstoðaði lögregluna við lögregluaðgerð í Þorlákshöfn í nótt, sem samkvæmt upplýsingum mbl.is tengist rannsókninni. Segir í umfjöllun DV að maðurinn hafi verið búsettur á Suðurlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert