Sérstakt varnarmálaráðuneyti ekki í bígerð

Þorgerður Katrín ræddi við mbl.is.
Þorgerður Katrín ræddi við mbl.is. mbl.is/Karítas

Ekki kemur til greina á þessum tímapunkti að setja á fót sérstakt varnarmálaráðuneyti en vinna tengd varnarmálum í utanríkisráðuneytinu er að aukast.

Þetta segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra í samtali við mbl.is.

Þor­gerður kynnti rík­is­stjórn­inni í dag til­lögu að mót­un stefnu í ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um Íslands. Þar kemur meðal annars fram að koma eigi upp samþætt­ing­armiðstöð ör­ygg­is- og varn­ar­mála í sam­vinnu við rík­is­lög­reglu­stjóra, Land­helg­is­gæsl­una og CERT-IS.

Einnig á að taka í gagnið ómannaðan kafbát til að sinna eftirliti neðansjávar, kaupa búnað til að nema og stöðva ólöglega dróna og efla eftirlit með netárásum.

Ekki ástæða enn sem komið er

Kemur ekki til greina að setja á fót varnarmálaráðuneyti?

„Ekki á þessu stigi, en það sem við erum að gera er að við erum að taka þessi skref til að efla varnarmálaskrifstofuna og samþætta þessar stofnanir sem koma að einum eða öðrum hætti að vörnum landsins,“ segir Þorgerður og heldur áfram:

„Það er að gefast vel og við sjáum að það er mikil samvinna og það eru ekki þessi síló á milli þessara sterku stofnana. Þannig við teljum enn sem komið er ekki ástæðu til þess. En þunginn í varnarmálahluta utanríkisráðuneytisins er óneitanlega að aukast.“

Ísland verði „verðugur bandamaður“

Stefnt er að því að leggja fram drög að öryggis- og varnarmálastefnu Íslands fyr­ir lok vorþings.

Spurð af hverju ráðist sé í mótun þessarar stefnu núna segir Þorgerður að það sé til þess að Ísland verði sterkara og betur í stakk búið til að mæta ógnum sem eru meiri í dag en áður.

„En ekki síður líka að verða sterkari samstarfsaðili og verðugur bandamaður við okkar vinaþjóðir og bandalagsríki,“ segir Þorgerður.

Hún segir að Evrópuríki og bandalagsþjóðir vestanhafs séu að reyna að efla varnir sínar og Ísland þurfi líka að taka þátt.

Engar spurningar skringilegar

Til þess að móta stefnuna verður sett­ur á fót sam­ráðshóp­ur þing­manna allra flokka sem eiga sæti á Alþingi til þess að ræða inn­tak og áhersl­ur stefn­unn­ar. Þorgerður kveðst vonast til þess að flokkapólitík ráði þar ekki för.

„Ég geri ekki ráð fyrir öðru en allir starfi að heilindum til að vinna að því að tryggja hagsmuni Íslands. Þá þýðir það líka meðal annars að það eru engar spurningar sem eru skringilegar heldur verðum við að spyrja okkur allra spurninga sem hugsast getur til að efla og styrkja varnirnar,“ segir Þorgerður.

Hún segir að samhliða hópnum verði sérfræðinganefnd en hún nefnir að Ísland fái mikla ráðgjöf frá innlendum og erlendum aðilum á sviði öryggis- og varnarmála. Ekki síst frá Atlantshafsbandalaginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert