Skildi Hopp-bílinn eftir úti í tjörn

Bíllinn var skilinn eftir úti í Bakkatjörn á Seltjarnarnesi í …
Bíllinn var skilinn eftir úti í Bakkatjörn á Seltjarnarnesi í nótt.

Það var heldur óskemmtileg aðkoman við Bakkatjörn á Seltjarnarnesi í morgun en bíll merktur Hopp hafði verið skilinn eftir úti í tjörninni. Svæðið er vinsælt til útivistar og fjölbreytt fuglalíf er við tjörnina. Sem betur fer virðist ekki hafa orðið mikið tjón.

Sæunn Unnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Hopp Reykjavík, brást skjótt við ábendingum um þetta og var komin á svæðið um hádegið. Þegar mbl.is ræddi við hana hafði hún þegar farið yfir stöðuna með Þór Sigurgeirssyni, bæjarstjóra á Seltjarnarnesi. Bæjarstjórinn segir að athæfið hafi þegar verið kært til lögreglu.

Aðkoman var ekki falleg en ekki varð mikið tjón af.
Aðkoman var ekki falleg en ekki varð mikið tjón af.

„Það er búið að taka bílinn upp úr tjörninni og það eru engar sjáanlegar skemmdir á umhverfinu, að minnsta kosti ekki eitthvað sem ekki er hægt að laga með hrífu. Þetta mál fer í farveg hjá okkur,“ segir Sæunn.

Hún segir að bíllinn hafi verið skilinn eftir í tjörninni í nótt. Næsta skref er að ræða við þann sem keyrði bílinn. 

Sæunn segir ennfremur að yfir 200 ferðir séu farnar á deilibílum Hopp á hverjum sólarhring og þjónustan sé afar vinsæl. Hræðilegt sé að einn þurfi að skemma fyrir hinum með slíku athæfi.

„Við viljum ekki hafa svona notendur, við viljum ekki að þjónusta okkar sé misnotuð á þennan hátt. Þetta mun hafa afleiðingar fyrir þennan notanda, hann borgar brúsann.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert