Heldur hefur hægst á skjálftavirkninni við Sundhnúkagígaröðina en snemma í morgun mældust fjórir skjálftar með skömmu millibili. Náttúruvársérfræðingur segir að það sé farið að styttast í næsta eldgos.
„Skjálftarnir halda áfram að tikka og á einni viku höfum við séð skýra aukningu á skjálftavirkni,“ segir Steinunn Helgadóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.
Hún segir að skjálftavirknin hafi aukist við kvikuganginn og síðustu daga hafi verið aukin virkni nær Grindavík, bæði norðvestan og norðaustan við bæinn.
„Þessir skjálftar sem hafa verið að mælast nær Grindavík er eitthvað sem við höfum ekki séð fyrr en fyrir síðasta gos og það er okkar mat að það fari að styttast í gos,“ segir Steinunn.
Hún segir að búist sé við því að fyrirfarinn verði lítill eins og raunin hefur verið í síðustu gosum.
„Fyrirvarinn gæti verið 30-40 mínútur frá fyrstu merkjum þar til gos hefst ,“ segir hún.
Að sögn Steinunnar mun Veðurstofa Íslands gefa út frekari upplýsingar um stöðu mála á vef sínum síðar í dag.