Ómannaður eftirlitskafbátur sem stendur til að taka í notkun myndi hjálpa við að vernda sæstrengi Íslands en óþekkt rússnesk skip hafa sést í lögsögu Íslands.
Þetta segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra í samtali við mbl.is.
Þorgerður kynnti ríkisstjórninni í dag tillögu að mótun stefnu í öryggis- og varnarmálum Íslands og er stefnt að því að leggja fram drög að stefnunni fyrir lok vorþings.
Meðal annars greindi Þorgerður frá áætlun um að taka ómannaðan eftirlitskafbát í notkun.
„Þetta er til þess að byggja undir örugg samskipti og fjarskipti, bæði borgaraleg og við erlent herlið. Þá þurfum við að geta vaktað meðal annars neðansjávarjarðstrengina og hafa eftirlit með helstu lykilhöfnum landsins,“ segir Þorgerður í samtali við mbl.is.
Háskóli Íslands lét á sínum tíma Landhelgisgæsluna fá þennan kafbát, sem er framleiddur á Íslandi, en Þorgerður segir að það þurfi að uppfæra hann og styrkja búnaðinn til þess að efla getu hans.
Spurð hvort þetta skref tengist fréttum af skuggaflota Rússlands sem valdið hefur skemmdum á sæstrengjum Eystrasaltsríkja segir Þorgerður:
„Já, við horfum auðvitað til þess og við erum að vinna okkar forvarnarvinnu. Við sjáum það líka að það hafa skip af erlendum uppruna, lesist rússnesk, verið að sigla á ákveðnum svæðum, bæði hér og annars staðar sem tengjast neðansjávarinnviðum. Við þurfum bara að tryggja eins örugg fjarskipti og samskipti og hægt er.“
Þorgerður nefnir í samhengi við þessar varnir að CERT-IS sé að fara frá Fjarskiptastofnun yfir í utanríkisráðuneytið til að efla frekar netöryggissveitir stjórnvalda.