„Þetta er ákvörðun um sjálfskaða“

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Þórarinn G. Pétursson varaseðlabankastjóri peningastefnu á …
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Þórarinn G. Pétursson varaseðlabankastjóri peningastefnu á fundinum í morgun. mbl.is/Hákon

Sú pólitíska vegferð sem farin er af stað með hótunum um tollastríð er í raun vegferð þar sem undið er ofan af þróun síðustu hálfu öldina sem hefur „leitt til gríðarlegrar velmegunar um allan heim og lyft milljónum fólks úr sárri fátækt og leikið lykilhlutverk að lækka verð á vörum.“ Ljóst er að tollastríð „mun auðvitað skaða okkur öll“ og leiða til langtímaskaða.

Þetta var meðal þess sem Þórarinn G. Pétursson, varaseðlabankastjóri peningastefnu, sagði á opnum fundi í efnahags- og viðskiptanefnd í morgun.

Þórarinn og Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri fóru þar meðal annars yfir alþjóðlegar horfur og möguleg áhrif alþjóðlegra vendinga á verðlag hér heima fyrir. Sagði Ásgeir að aukinn óstöðugleiki gæti leitt til færri ferðamanna frá Bandaríkjunum sem væri eitthvað sem Íslendingar þyrftu að hafa áhyggjur af.

Fyrst og fremst hækkun á vöruverði

Ásgeir sagði að vendingarnar undanfarið gætu fyrst og fremst komið fram í hækkunum á vörum. Nefndi hann að í Norður-Ameríku hefði um langt skeið verið byggt upp eitt viðskiptasvæði milli Mexíkó, Bandaríkjanna og Kanada þar sem fyrirtæki skipulegðu framleiðslu sína yfir löndin þrjú. Ódýrt hráefni væri fyrir norðan, ódýrt vinnuafl fyrir sunnan og Bandaríkin svo í miðjunni.

Nefndi hann að bílaframleiðendur sendu varahluti fram og til baka eftir því hvað væri hagkvæmast, en að með því að rífa þessar keðjur í sundur myndi koma til gríðarlegur kostnaður.

Sama ætti við ef viðskipti yfir hafið til Evrópu myndu dragast saman, þá væri hægt að sjá mikla hækkun á vöruverði.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Þórarinn G. Pétursson, varaseðlabankastjóri peningastefnu, sátu …
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Þórarinn G. Pétursson, varaseðlabankastjóri peningastefnu, sátu fyrir svörum á fundi nefndarinnar. mbl.is/Hákon

Lönd eins og Ísland verðtakar á erlendum mörkuðum

Nefndi hann þá að Ísland gæti lent á milli ef til tollastríðs kæmi og lagðir væru tollar á útflutningsvörur Íslands. Sagði Ásgeir að lítil lönd, eins og Ísland, væru verðtakar á erlendum mörkuðum og ef til tollastríðs kæmi væri líklegt að slíkur kostnaður myndi lenda á Íslandi. Tók hann hins vegar fram að ekkert væri ljóst í þessum efnum og þetta væru bara vangaveltur.

Þurfum að hafa áhyggjur af færri heimsóknum

Ásgeir sagði svo að allt tal um tolla hefði nú þegar orðið til þess að Kanadamenn ferðuðust síður til Bandaríkjanna og keyptu síður bandarískar vörur. Sama ætti við um Bandaríkjamenn sem væru að fresta ferðalögum til Kanada. Enda væri það þannig að óvissa leiddi til þess að fólk minnkaði ferðalög og tæki aðrar stærri ákvarðanir eins og að kaupa hús, eða velja að fara á eftirlaun.

Benti Ásgeir á að ferðaþjónustan á Íslandi væri að miklu leyti byggð á ferðamönnum frá Bandaríkjunum og ef óstöðugleiki væri þar gæti það komið fram í færri heimsóknum til Íslands. „Það er eitthvað sem við þurfum helst að hafa áhyggjur af,“ sagði hann.

„Seðlabankar geta voðalega lítið gert við þessu“

Þórarinn sagði að það að vinda ofan af því viðskiptakerfi sem hafi verið byggt upp síðustu áratugi í heiminum myndi leiða til langtímaskaða og að seðlabankar gætu lítið gert til að bregðast við því.

„Seðlabankar geta voðalega lítið gert við þessu. Þetta er ákvörðun um sjálfskaða. Það er lítið sem við getum gert, sérstaklega ef það hægir á sama tíma á efnahagsumsvifum og verðbólga fer af stað,“ sagði Þórarinn.

Ákvarðanir teknar „á klukkutíma fresti.“

Fór hann yfir það hvernig tollastríð gæti haft þau áhrif að heimshagvöxtur færi niður á við og það gæti haft áhrif á útflutning Íslands þar sem eftirspurn eftir vörunum væri minni. Það myndi leiða til minni hagvaxtar og að vörur erlendis frá yrðu dýrari. Til viðbótar gætu tollar á okkur aukið þessi áhrif enn frekar.

Sagði Þórarinn jafnframt vandasamt að fylgjast með og meta stöðuna nákvæmlega, þegar svo virtist sem ákvarðanir væru teknar um þetta „á klukkutíma fresti.“ Tók hann þó fram að bankinn væri að meta og greina möguleg áhrif tollastríðs á íslenskan þjóðarbúskap.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert