Vanþekking gæti dregið okkur inn í tollastríð

Gylfi segir Ísland geta dregist inn í tollastríð því þeir …
Gylfi segir Ísland geta dregist inn í tollastríð því þeir sem taki ákvarðanir séu ekkert mjög góðir í landafræði og samtímasögu. Samsett mynd/Seðlabanki Íslands/AFP

„Þetta er einfaldlega hið versta mál, hvernig sem á það er litið,“ segir Gylfi Magnús­son, formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands, pró­fess­or í hag­fræði við Há­skóla Íslands og fyrr­ver­andi efna­hags- og viðskiptaráðherra.

Vísar hann þar til þess ástands sem skapast hefur og mun þróast áfram í tenglsum við hótanir um tolla­stríð.

Ekki viss um að hann þekki muninn

Spurður um verstu mögulegu niðurstöðu fyrir Ísland í samtali við mbl.is segir Gylfi að það væri annars vegar að við myndum með einhverjum hætti dragast inn í tollastríðið, til dæmis þannig að Bandaríkjamenn settu tolla á okkar útflutning, fisk og fleira.

Vandamálið sé að Bandaríkjaforseti tali frekar loðið um tolla á Evrópu. Hann virðist kannski oftast eiga við Evrópusambandið en hagfræðingurinn segist ekki viss um að forsetinn sé alveg með það á hreinu hver munurinn sé á ESB, EES og EFTA til dæmis.

„Ég held að við gætum hreinlega dregist inn í þetta,“ segir Gylfi. „Því þeir sem taka ákvarðanir eru ekkert mjög góðir í landafræði og samtímasögu.“

Fríverslun skapað velmegun

Hins vegar segir hann að áhrifa kunni að gæta á íslenska ferðaþjónustu því ef Bandaríkjamenn séu mjög svartsýnir á stöðu mála fari þeir kannski síður í dýr ferðalög til Íslands.

Aftur á móti segir hann mjög langsótt að Evrópa fari að setja tolla á okkur enda væri það brot á EES-samningnum.

Gylfi segir það einfaldlega svo að fríverslun með lágum og helst engum tollum eða öðrum viðskiptahindrunum hafi skapað velmegun. Enginn vafi sé á því að rekja megi að einhverju leyti hagvöxt og aukna velmegun eftirstríðsáranna til þess að samið hafi verið smám saman um að liðka fyrir alþjóðaviðskiptum og þar á meðal að vinda ofan af tollmúrum sem reistir voru í kreppunni á fjórða áratug síðustu aldar.

Þá tók við mikið hagvaxtarskeið um nánast allan heim. Segir Gylfi grátlegra en svo að hægt sé að færa það í orð, hve afleitt skref aftur á bak það sé að ætla að hindra verslun með þeim hætti sem þetta bjánalega tollastríð gæti gert, eins og hann orðar það.

Gylfi segir aðfangakeðjur hafa orðið alþjóðlegri undanfarna áratugi sem skilað hefur miklum ávinningi. Framleiðslan hafi færst að einhverju leyti frá gömlu iðnveldunum eins og Bandaríkjunum og Bretlandi og jafnvel almennt Vestur-Evrópu og til landa eins og Kína og annarra nágrannaríkja í Suðaustur-Asíu.

„Það er bara ávinningur fyrir báða. Það er ávinningur fyrir Vesturlönd að geta keypt ódýran og góðan varning frá Kína og ávinningur fyrir Kína að geta selt hann,“ segir Gylfi.

Veit ekkert hvað gerist

Hagfræðingurinn segir ekkert skrítið að eignamarkaðir á borð við hlutabréfamarkað taki stöðunni illa því í raun og veru sé verið að koma í veg fyrir að verðmæti verði til á sem hagkvæmastan hátt.

„Íslenski hlutabréfamarkaðurinn endurspeglar oftast að einhverju marki stemninguna í nágrannalöndunum og Bandaríkjunum sérstaklega. Hlutabréfaverð hefur eitthvað lækkað hérna eins og í nágrannalöndunum þó það sé kannski ekki mjög mikið enn sem komið er,“ segir hann.

„Verðið er orðið svipað og það var seinni hluta síðasta árs. Það er ekkert mjög mikil sveifla en auðvitað veit maður ekkert hvað gerist næst.“

Ekki hægt að lesa í áform forsetans

Öll óvissa er mjög slæm að sögn Gylfa. Hún kæli hagkerfi og dragi úr mönnum þrótt sem veldur minni fjárfestingu og minni uppbyggingu.

Hluti af óvissunni segir hann að enginn geti lesið í áætlanir Bandaríkjaforseta.

„Hann segir eitt og gerir annað eða gerir eitthvað og vindur svo ofan af því daginn eftir og virðist ekki vera með neina heilsteypta langtímahugsun, þannig að það er í raun ógerningur að spá.“

Gylfi segir stöðuna hafa slæm áhrif á kaupmátt, hagvöxt, atvinnuleysi og verðbólgu.

„Þegar Seðlabankar sjá að verðbólga fer hækkandi er nánast sjálfgefið að hætta er á því að vextir verði hærri en ella.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert