„Það eru aðrar aðstæður í Danmörku þar sem þéttleiki byggðar er mun meiri þar en hér á landi og þeir telja að samkeppnin þar muni grípa þetta,“ segir Þórhildur Ólöf Helgadóttir forstjóri Íslandspósts um þá ákvörðun danskra stjórnvalda að danski pósturinn hætti að bera út bréf.
Hún segir að í Danmörku sé talið að póstburðarmarkaðurinn geti tekið yfir þjónustu ríkisfyrirtækisins.
„Þetta er pólitísk ákvörðun og það stendur til að setja allt í útboð en þetta er ekki alveg einfalt því ef samið er við fjóra aðila um dreifingu í sömu húsin þá næst ekki sá sparnaður út úr kerfinu sem stefnt var að. Þetta er ekki alveg klippt og skorið og póstheimurinn horfir til þess hvernig til tekst.“
Þórhildur segir að þróunin í Noregi sé áhugaverð og hún horfi frekar til þess sem þeir eru að gera, þar sem þéttleiki byggðar þar sé sambærilegur og á Íslandi.
„Í Noregi eru engin áform um að fara sömu leið og Danir en þeir eru að gera breytingar á póstþjónustunni í dreifbýli þar sem gert er ráð fyrir því að fólk sæki póstinn á ákveðna þjónustustaði. Þeir hafa breytt sinni þjónustu frá því að dreifa bréfum fimm daga vikunnar í annan hvern dag og þar er nú unnið eftir þriggja ára plani, hvernig þeir sjá fyrir sér póstþjónustu þróast næstu árin. Norski pósturinn vinnur þetta í samráði við ráðuneytið.“
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag