Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra, laut í lægra haldi gegn íslenska ríkinu í skaðabótamáli þar sem ríkinu var stefnt vegna aðgerða sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu sem Ásthildur og eiginmaður hennar töldu vera lögbrot.
Dómur var kveðinn upp rétt í þessu í Héraðsdómi Reykjavíkur og var Ásthildur viðstödd dómsuppkvaðninguna.
Um er að ræða skaðabótamál þeirra Ásthildar og eiginmanns hennar gegn ríkinu vegna meintra lögbrota sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Sögðu þau sýslumann ekki hafa sinnt lögbundnum skyldum sínum.
Var embættinu gefið að sök að hafa ekki tekið tillit til fyrningar vaxta við úthlutun söluverðs eftir uppboð á heimili þeirra hjóna og hófst málið árið 2016 þegar nauðungasölubeiðni barst frá Arion banka.
Í samtali við mbl.is segir Ásthildur það liggja ljóst fyrir að sýslumanni beri sú skylda að taka tillit til fyrningu vaxta. Það hafi ekki verið gert í þessu tilfelli.
„Þannig að það að dómarinn hafi fundið einhverjar leiðir til þess að fara út úr því. Það er svo sem ekkert nýtt, þeir hafa gert þetta áður,“ sagði ráðherrann en hún kaus að tjá sig ekki frekar þar sem hún átti eftir að fara yfir dóminn.
Aðalmeðferð málsins fór fram 12. febrúar og mætti þar ráðherrann fyrir dóm og gaf skýrslu.
Þar sagði hún þau hjónin hafa fengið tvær vikur til að bregðast við úthlutunargerð sýslumanns þegar hún var send til þeirra árið 2018.
Ásthildur var á þeim tíma formaður Hagsmunasamtaka heimilanna og sagði það strax hafa komið í ljós að sýslumaður hafði ekki gert ráð fyrir fyrningu vaxta upp á tæpar 10,7 milljónir. Það hafi hjónin bent á.
Sagði ráðherrann, en tók fram að það væri umorðað, að svör sýslumannsins hafi verið á þann veg að þau mættu „éta það sem úti frýs og fara í mál.“
Hjónin kærðu úthlutunargerðina í mars 2018 og unnu málið fyrir Héraðsdómi Reykjaness í júní sama ár. Kemur þó fram í tímalínu málsins að dómari hafi úthlutað hærri upphæð en skyldi. Arion banki hafi svo áfrýjað málinu til Landsréttar stuttu síðar sem sneri dómi Héraðsdóms Reykjaness við.
Þá áfrýjuðu hjónin til Hæstaréttar sem tók ekki málið upp. Að sögn Ásthildar hafi það verið vegna þess að Hæstiréttur vildi ekki ómaka sig fyrir smáupphæð.
Nauðungarsamningum um endurkaup á heimilinu var náð við Arion banka árið 2019 en að sögn Ásthildar tók bankinn ekki tillit til fyrningu vaxtanna. Afsalið fengu þau í janúar 2020 og samskiptum þeirra og Arion banka var þar með lokið.
Ásthildur var svo kjörinn inn á þing fyrir hönd Flokks fólksins í Alþingiskosningunum árið 2021 og sagðist hún hafa strax í janúar 2022 haft samband við lögmann vegna málsins.
Fréttin hefur verið uppfærð.