Tillaga sem skoðar frekari uppbyggingarmöguleika í Grafarvogi hefur tekið breytingum frá því að hún var síðast kynnt og hefur fjöldi nýrra íbúða minnkað úr 476 í 340.
Af 340 íbúðum eru 43% ætlaðar óhagnaðardrifnum félögum. Þá er ætlunin að uppbyggingin innihaldi fjölbreyttar íbúðategundir – einbýli, parhús, raðhús, og fjölbýli að því er segir í tilkynningu Reykjavíkurborgar.
Drög að tillögu að aðalskipulagsbreytingu um fjölgun íbúða í grónum hverfum – sem skoðar frekari uppbyggingarmöguleika í Grafarvogi – voru kynnt í umhverfis og skipulagsráði Reykjavíkurborgar í morgun.
Aðeins hluti af reitunum eru háðir breytingu á aðalskipulagi, aðrir eru þegar skipulagðir sem íbúðarbyggð.
Alls 867 athugasemdir bárust í skipulagsgátt, þar af 848 frá íbúum.
Voru athugasemdirnar flokkaðar í þemu eftir helstu áherslum og svæðum en flestar sneru þær að Víkurhverfi og Sóleyjarima.
Um er að ræða drög að tillögum að breytingum á aðalskipulagi. Tillögurnar fara svo í formlegt athugasemda- og umsagnarferli á ný í skipulagsgáttinni, áður en lögformleg aðalskipulagsbreyting verður endanlega mótuð.
Helstu breytingar í Staðahverfi eru að teknar hafa verið úr tillögunni tvær einbýlishúsalóðir við Garðsstaði, en jarðvegsgreining sýndi þar mikið dýpi niður á fast.
Í Víkurhverfi hafa 29 íbúðir af 48 við Hamravík og Breiðavík verið teknar úr tillögunni eftir frekari umhverfisgreiningu, þar sem skoðaður var jarðvegur, gróður, landhalli og útsýni. Reitur á Víkurskólalóð fyrir 12 íbúðir var tekinn út til að skerða ekki framtíðaruppbyggingu lóðar, er tengist leikskóla og skóla.
Í Borgarhverfi var ein einbýlishúsalóð tekin út við Tröllaborgir, eftir jarðvegsgreiningu sem sýndi mikið dýpi niður á fast.
Í Rimahverfi við Sóleyjarrima var byggingarmagn minnkað frá samkeppnistillögu. Íbúðirnar verða alls 52, í stað 80. Þá veður öll byggð á tveimur hæðum, í stað tveggja til þriggja hæða í samkeppnistillögu.
Stórt grænt svæði verður á suðvesturhluta lóðarinnar, sem verður styrkt fyrir útivist. Unnið verður með blágrænar ofanvatnslausnir og líffræðilegan fjölbreytileika, sem og meðfram lóðarmörkum við Rimaskólalóð þar sem skemmtilegt grænt svæði verður þróað beggja vegna göngustígs.
Bílastæðahús er fjarlægt og eru bílastæði því leyst innan lóðar í litlum mengum, og gert ráð fyrir einu bílastæði á íbúð.
Íbúðabyggð við Langarima minnkar úr 30 íbúðum í 20, eftir þróun með tilliti til veghelgunar, hljóðmælinga og annarra umhverfisþátta. Íbúðabyggð fyrir tvö lítil fjölbýli með 16 íbúðum við enda Rimaflatar var tekin út eftir nánari þróun.
Eftir frekari þróun með tilliti til veghelgunar við Hallsveg og hljóðmælinga hefur íbúðabyggð við Gagnveg í húsahverfi verið minnkuð úr 68 íbúðum í 48.
Önnur tveggja lóða við Völundarhús – með átta íbúðum, einbýli og tvíbýlishúsum – var tekin út eftir umhverfismat og athugasemdir. Þá fækkaði um eitt parhús á hinni lóðinni við Völundarhús og eru þar nú þrjú parhús með sex íbúðum í stað fjögurra parhúsa með átta íbúðum.
Við Lokinhamra í Hamrahverfi var íbúðum fækkað úr 14 í 8, og bygging lækkuð úr þremur hæðum í tvær hæðir. Íbúðauppbygging mun hafa áhrif á sleðabrekku á lóðinni og er því lagt til að færa sleðabrekkuna á öruggara svæði þar sem núverandi brekka liggur næst Gullinbrú sem er umferðaþung gata.
Þannig er horft til þróunar nýrrar sleðabrekku fyrir neðan Salthamra 17, þar sem hægt er að nýta stíginn sem tengir Hamrahverfið við Gufunesbæ sem tengingu við brekkuna.
Lóð við Fannafold í Foldahverfi – fyrir sex íbúðir – var tekin út vegna þess að hún þótti ákjósanleg fyrir framtíðarleiksvæði. Við Vesturfold var einnig tekin út ein einbýlishúsalóð vegna mikils gróins gróðurs á reit sem mikilvægt þótti að halda í.
Næstu skref eru að þróa tillögur áfram á deiliskipulagsstigi. Stefnt er að auglýsingu þeirra í vor. Samhliða verða græn svæði tengd uppbyggingarlóðunum þróuð áfram.
Fólk er hvatt til að kynna sér málið betur og koma með ábendingar, en tillagan að aðalskipulagsbreytingunni verður nú sett inn á skipulagsgatt.is. Hægt verður að setja inn athugasemdir til og með 10. apríl.
Fimmtudaginn 20. mars klukkan 17 verður kynningarfundur haldinn á Borgum í Grafarvogi, til að kynna einstaka tillögur að íbúðauppbyggingu sem verið er að vinna með áfram. Þar gefst íbúum tækifæri til að kynna sér málið nánar.
Búið er að setja upp almenna upplýsingasíðu á vef Reykjavíkur og líka sérstakan kortavef þar sem hægt er að skoða svæðin sem um ræðir og ítarefni í formi pdf-skjala sem sýnir drög að tillögum að uppbyggingu á hverjum stað.