Umræða um ástand vega í landinu hefur verið hávær undanfarið. Framkvæmdastjóri félags íslenskra bifreiðaeiganda segir fjölda tilkynninga hafa borist á borð félagsins. Vegirnir séu hættulegir og staðan sé alvarleg. mbl.is fór á rúntinn og kannaði málið.
Í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is segir Vegagerðin að tólf tjónstilkynningar hafi borist það sem af er mars. 150 hafi borist í febrúar en stór hluti þeirra var þá vegna bikblæðinga sem urðu á Vesturlandi í mánuðinum.
Holutjón eru þó langflest á höfuðborgarsvæðinu en einnig á Hringveginum á Suðurlandi.
Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri félags Íslenskra bifreiðareigenda, segir veruleg munatjón hafa orðið á bílum. Einnig sé ábyrgð veghaldara hér á landi mun minni en í nágrannalöndum og geti því hinn almenni vegfarandi á ökutækjum orðið fyrir miklu tjóni án þess að fá það bætt.
Þá kallar hann eftir þjóðarátaki í uppbyggingu vega. Hundrað milljarðar séu teknir af bílum og umferð í formi skatta. Þar af fari innan við einn þriðji af því í uppbyggingu vegakerfisins.
„Þetta er dýrmætasta eign ríkisins og það þarf að viðhalda þeim.“
Á Breiðholtsbraut voru starfsmenn verktakafyrirtækisins Loftorku að störfum við að fylla í holur í gær.
Í samtali við mbl.is segir Friðrik Andrésson, verkstjóri Loftorku, ekki endilega vera meira að gera en vanalega þar sem fyrirtækið sé að störfum alla daga við ýmis verkefni.
Hins vegar hafi íkasti, sem það kallast þegar holur veganna eru fylltar, fjölgað og hefur fyrirtækið sinnt því mikið þegar veður leyfir, sem sé alls ekki gefið svo snemma á árinu.
Hann segir holur veganna nú vera stærri og að vegakerfið sé í raun að hruni komið.