„Hann var í fanginu mínu og hætti að anda“

Drengurinn komst loks í meðferð í Blönduhlíði í febrúar, eftir …
Drengurinn komst loks í meðferð í Blönduhlíði í febrúar, eftir margra mánaða bið. Ljósmynd/Colourbox

Fimmtán ára drengur með alvarlegan fíknivanda, sem sjálfur var tilbúinn að fara í meðferð síðasta sumar, var látinn bíða vegna sumarlokunar á meðferðardeild Stuðla. Biðin átti eftir að vara mánuðum saman, en hann komst fyrst í meðferð í febrúar síðastliðnum þegar meðferðarúrræði fyrir börn og unglinga var opnað tímabundið á Vogi.

Á meðan hann beið lenti hann í öndunarstoppi eftir að hafa tekið falsaðar xanax-kvíðatöflur og var vistaður á geðgjörgæslu á Landspítalanum þar sem hann var sprautaður niður. 

Þá var hann ítrekað fluttur í neyðarvistun, bæði á Stuðla og lögreglustöðina í Flatahrauni, sem reyndist honum mikið áfall, enda úrræðið talið óboðlegt börnum. Í eitt skipti var hann vistaður þar í að minnsta kosti þrjá sólahringa, þrátt fyrir að Barna- og fjölskyldustofa hafi gefið út að tveir sólarhringar séu hámarksdvöl í Flatahrauni.

Þar sem ekkert meðferðarúrræði var í boði á þessum tíma var neyðarvistun eina úrræðið sem drengnum bauðst. Eftir hámarks vikudvöl í neyðarvistun hverju sinni var hann kominn aftur út og í neyslu, enda ekkert sem greip hann. Þannig gekk þetta mánuðum saman.

Móðir hans gagnrýnir úrræðaleysið harðlega og það hve seint fyrsta inngrip kom, þrátt fyrir að augljós vandi væri til staðar. Þá finnst henni skrýtið að afeitrunardeild ungmenna á Landspítalanum sé ekki notuð meira. 

Byrjaði að fikta fyrir rúmu ári síðan

Drengurinn, sem er greindur með ADHD, er hvatvís og með námsörðugleika, stundaði nám við einkarekinn gagnfræðaskóla þar sem hann var á rafíþróttabraut. Aðeins er rúmt ár síðan fór að halla undan fæti hjá honum og foreldrarnir áttuðu sig á að hann var farinn að fikta. Það var hins vegar ekki fyrr en hann var rekinn úr skólanum að vandinn fór að ágerast af alvöru.

„Það er rúmt ár síðan við vorum farin að átta okkur á að það var áhættuhegðun hjá honum og svona fikt, ekki neysla, heldur var hann að prófa að drekka og reykja gras. Þá voru líka farnar að koma tilkynningar inn á borð barnaverndar,“ segir móðirin í samtali við mbl.is.

Sótt var um MST-fjölkerfameðferð fyrir drenginn; úrræði á vegum Barna- og fjölskyldustofu fyrir börn á aldrinum 12 til 18 ára sem glíma við alvarlegan hegðunarvanda sem birtist í afskiptum lögreglu, erfiðleikum í skóla, ofbeldi og vímuefnanotkun, og þurfa á aðstoð að halda. Meðferðin fer fram inni á heimili barnsins.

Um þriggja til fjögurra mánaða bið var eftir úrræðinu að sögn móðurinnar. Sú bið hafi verið of löng og vandinn hafi verið orðinn of mikill áður en það inngrip loks kom.

Móðir 14 ára drengs með alvarlegan fíknivanda lýsti sömu upplifun af MST-meðferðinni í samtali við mbl.is fyrr í vikunni. Til að hún virkaði sem skyldi, yrði hún að hefjast á fyrstu stigum vandans.

„Eftir að hafa verið í henni og þekkt nokkra sem hafa verið í henni, þá veit ég að þetta virkar rosalega vel áður en fikt verður neysla.“

Verið í „frjálsu falli“ síðan hann var rekinn

Skólastjórnendur í skóla drengsins vissu að beðið væri eftir MST-meðferð, sem vonir voru bundnar við að gæti hjálpað honum á beinu brautina aftur. En engu að síður var tekin ákvörðun um að reka hann úr skólanum.

„Skólinn tekur ákvörðun um það, af því hann sást veipa á bensínstöðinni við hliðina á skólanum, þá var hann rekinn úr grunnskóla, bara alveg rekinn,“ segir móðirin sem komst síðar að því að það sé leyfilegt.

„Ég grátbað um að hann yrði ekki rekinn úr skólanum, sagði að hann væri að fara að byrja í MST. En þau sögðu hann ekki sýna neinn áhuga á að vera í skólanum. Hvaða 15 ára gamalt barn vill mæta í skólann þegar því líður ekki vel í skólanum?“

Drengurinn var tekinn inn í annan grunnskóla, en þar fékk hann aðeins að mæta þrjá daga í viku, tvo tíma í senn, þegar aðrir nemendur voru farnir heim. Honum fannst hann algjörlega útskúfaður og spurði mömmu sína hvort þau héldu að hann væri eitraður. Varð þetta til þess að hann hætti alveg að vilja mæta í skólann.

„Á þessum tíma var hann farinn að leita í rangan félagsskap. Þetta voru krakkar sem höfðu ekkert að gera. Voru bara úti að drekka, brjóta af sér og í neyslu,“ segir móðirin.

„Þetta byrjaði í raun þegar hann var rekinn úr skólanum. Síðan þá hef ég verið í frjálsu falli með hann. Ég náði honum ekki í skólann, MST var hérna en hann var kominn í svo mikinn mótþróa. Boltinn fór að rúlla og innlagnir á neyðarvistun hófust.“

Meðferðarheimilið Blönduhlíð í Mosfellsbæ var aldrei opnað, en úrræðinu fundin …
Meðferðarheimilið Blönduhlíð í Mosfellsbæ var aldrei opnað, en úrræðinu fundin tímabundin staðsetning á Vogi. mbl.is/Karítas

Náði að bjarga syninum eftir öndunarstopp

Í nóvember síðastliðnum kom smá tími þar sem gekk betur og drengurinn fékk vinnu sem hann sinnti vel. Svo kom bakslag og hann fór að fikta við að taka falsaðar xanax-töflur sem hafa verið í umferð og lögreglan hefur varað við. Af töflunum varð hann mjög árásargjarn og fékk miklar ranghugmyndir. Var hann hætt kominn og litlu mátti muna að illa færi.

„Hann man ekkert eftir þessu, þetta var rétt fyrir jól. Á tveimur sólahringum fórum við með hann þrisvar á slysó. Hann var í fanginu mínu og hætti að anda, en ég náði að þrýsta á bringubeinið á honum þannig hann fékk loft.“

Móðirin segir þetta tímabil allt renna saman í eitt, þegar hún reynir að rifja upp atvikin í tímaröð. Svo mikið gekk á.

Eftir að hafa verið sendur í neyðarvistun af spítalanum í tvígang var hann kyrrsettur þegar hann kom þangað í þriðja skipti. Til stóð að hann færi á afeitrunardeild ungmenna á Landspítalanum í kjölfarið.

Móðirin, sem sjálf starfar á geðsviði Landspítalans og þekkir því vel til, taldi það rétta ákvörðun og í raun það eina í stöðunni.

Sprautaður niður á geðgjörgæsludeild

Áður en drengurinn var lagður þangað inn var henni þó skyndilega tjáð að hann gæti ekki farið þangað því framkvæmdir stæðu yfir á deildinni. Hún vissi hins vegar að það var ekki rétt og kannaði málið sjálf hjá sínum vinnufélögum.

Þá var búið að rýma deildina svo hægt væri að leggja son hennar inn, en samt var tekin ákvörðun um að gera það ekki, sem móðurinni fannst óskiljanlegt.

Drengurinn brást illa við þegar hann fékk að vita að hann hefði verið kyrrsettur og þurfti að kalla til lögregluna til að eiga við hann. Í kjölfarið var hann lagður inn á geðgjörgæsludeild, sem móðirin segir alls ekki vera stað fyrir börn eða ungmenni. Ungt fólk sé til að mynda mjög sjaldan vistað þar þegar það kemur í sína fyrstu innlögn, enda geti innlögn þar valdið fólki áfalli.

„Þar er veikasta fólkið á landinu, fólkið í veikasta fasanum.“

Sex lögreglumenn þurfti til að flytja drenginn yfir á geðdeild þar sem hann var sprautaður niður.

Hún mátti ekki fylgja syninum inn á deildina en samstarfsfélagar hennar bjuggu um hana í vaktherbergi, svo hún gæti allavega verið nálægt honum.

„Ég fékk ekkert að vita. Ég veit ekki hver klúðraði hverju, en þegar hann kom í hús þá stóð afeitrunardeildin tóm. Ég var alltaf að bíða eftir því að hann yrði fluttur upp, því inni á afeitrunardeildinni mega foreldrar vera með ef barnið kýs.“

Hún gagnrýnir hvernig var tekið á þessu máli og þykir mjög sérstakt að sonur hennar hafi verið fluttur yfir á geðgjörgæslu þegar afeitrunardeildin hefði átt að geta tekið á móti honum.

Móðirin óttast að hvað tekur við eftir að meðferð í …
Móðirin óttast að hvað tekur við eftir að meðferð í Blönduhlíð, þar sem ekkert langtímaúrræði sé til staðar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vistun í Flatahrauni mikið áfall

Móðirin segir drenginn hafa verið neyðarvistaðan að minnsta kosti tíu sinnum síðastliðið ár, þar af nokkrum sinnum á lögreglustöðinni í Flatahrauni, úrræði sem bæði mennta- og barnamálaráðherra og forstjóri Barna- og fjölskyldustofu hafa viðurkennt að sé ekki boðlegt börnum.

Barna- og fjölskyldustofa hefur gefið út að hámarksdvöl í Flatahrauni sé tveir sólarhringar, en umboðsmaður barna vakti athygli á því í bréfi til mennta- og barnamálaráðherra í síðustu viku að þær upplýsingar væru ekki réttar. Dæmi væru um að börn hefðu verið vistuð þar í allt að sex sólarhringa í senn. Forstjóri Barna- og fjölskyldustofu fullyrti hins vegar í samtali við mbl.is að um einstakt tilfelli hefði verið að ræða.

Móðirin segir að drengurinn hafi allavega í eitt skipti verið vistaður í Flatahrauni í að minnsta kosti þrjá sólarhringa. Það er því ljóst að fleiri en eitt dæmi eru um að börn hafi verið vistuð á lögreglustöðinni lengur en tvo sólarhringa í einu. 

Þá vakti umboðsmaður einnig athygli á því að vistun í Flatahrauni hefði reynst sumum börnum áfall.

Það er raunin í tilfelli sonar hennar. Vistun í Flatahrauni hefur farið mjög illa í hann og bregst hann ókvæða við þegar hann veit að til stendur að flytja hann þangað.

„Ef það er sagt við hann að hann fari upp á Flatahraun, þá brjálast hann og segir: „Plís ekki senda mig inn á Flatahraun, ég vil ekki fara inn á Flatahraun.“ Foreldrar mega ekki fara inn á Flatahraun en við megum fara inn á Stuðla, þannig maður veit ekkert hvar hann er.“

Hann tekur mun betur í það að fara í neyðarvistun á Stuðlum og er yfirleitt þokkalega rólegur þegar flytja á hann þangað, að sögn móðurinnar.

Góður vinur lést í brunanum á Stuðlum

Síðasta sumar var gerð tilraun til að sækja um meðferðarúrræði fyrir drenginn, en þá átti að hann sjálfur frumkvæði að því að vilja hætta í neyslu. Þegar foreldrar hans ætluðu að sækja um meðferð á þeim tíma var meðferðardeildin á Stuðlum hins vegar lokuð vegna sumarleyfa og ekkert annað úrræði í boði.

Þar af leiðandi var 15 ára drengur, sem var tilbúinn að snúa við blaðinu og sækja sér meðferð, látinn bíða. Og hann þurfti að bíða lengi.

Það var ekki fyrr en í febrúar síðastliðnum að hann komst loks í meðferð á meðferðarheimilinu Blönduhlíð, sem tímabundið er starfrækt á Vogi. Meðferðarheimili sem stóð til að opna í Mosfellsbæ í byrjun desember, en úr því varð ekki því húsnæðið stóðst ekki brunaúttekt og ekkert starfsleyfi fékkst.

„Við byrjuðum að sækja um meðferð í sumar, þá sagði hann sjálfur að hann langaði að hætta og að hann langaði að fara í meðferð. Þá talaði ég við barnaverndarfulltrúann okkar en fékk þau svör að það væri sumarfrí á meðferðarganginum en að það yrði sótt um þegar það yrði opnað.“

Tíminn leið og foreldrarnir reyndu reglulega að þrýsta á að drengurinn kæmist í meðferð. Svo varð bruni á Stuðlum í október, þar sem góður vinur drengsins lést, og hafði það mikil áhrif á hann.

„Viku eftir jarðarförina fengum við að vita að hann væri næstur inn í meðferð. Við segjum við barnaverndarfulltrúann að við viljum afþakka núna og bíða aðeins. Það hefði ekki gert neinum gott að setja hann inn á Stuðla á þeim tíma, hann var í svo mikilli sorg og reiði.“

Góður vinur drengsins lést í bruna á Stuðlum í október.
Góður vinur drengsins lést í bruna á Stuðlum í október. mbl.is/Karítas

Hefur strokið úr Blönduhlíð

Greint hefur verið frá því að hefðbundin meðferðardeild hafi ekki verið opnuð aftur á Stuðlum eftir brunann og að meðferð og greining, líkt og áður var hluti af starfseminni, hafi ekki farið þar fram síðan þá. Það er því ólíklegt að drengurinn hefði verið tekinn inn í meðferð á Stuðlum, þó að þau hefðu þegið boðið.

Þeim var svo tjáð að hann væri efstur á lista yfir þau börn sem kæmust í meðferð í Blönduhlíð þegar heimilið yrði opnað. Það kom hins vegar í ljós að svo var ekki og þurfti að þrýsta á að hann kæmist þar inn í öðru holli.

„Þetta hefur gengið mjög brösuglega, hann hefur strokið þaðan. Það hefur verið erfitt að vinna með hann, en hann er aðeins að lenda núna. Ég hef heyrt að þetta eigi bara að vera tveir mánuðir og ég er strax komin með kvíðahnút yfir því hvað gerist þegar hann kemur út. Það er ekkert í boði,“ segir hún.

Engin langtímameðferð hefur verið í boði fyrir drengi frá því í apríl í fyrra, en þá var meðferðarheimilinu Lækjarbakka lokað vegna myglu. Starfseminni hefur verið fundin staðsetning í Gunnarsholti á Rangárvöllum, en ráðast þarf í töluverðar framkvæmdir á húsnæðinu áður en hægt verður að taka það í notkun. Framkvæmdir eru ekki hafnar og sagði Funi Sigurðsson, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs Barna- og fjölskyldustofu í samtali við mbl.is fyrir skömmu, að það væru að minnsta kosti sex mánuðir í að heimilið yrði opnað.

Horfa út fyrir landsteinana

Móðirin segir foreldrana þó ekki hafa gefið upp vonina, en þau hafa skoðað ýmsa möguleika varðandi meðferðarúrræði. Jafnvel horft út yfir landsteinana.

Um leið og þau fengu að vita að drengurinn væri ekki efstur á blaði inni í Blönduhlíð setti móðirin sig í samband við meðferðarstofnun í Suður-Afríku, þar sem íslensk börn með fíknivanda hafa sótt meðferð.

„Ég sendi tölvupóst að kvöldi til og daginn eftir var ég komin með svar. Ég sendi aftur og ég fékk svar korteri seinna. Ég mætti svo mikilli einlægni og hlýju og heiðarleika, að mér fannst.“

Henni finnst skrýtið að mæta meiri hlýju og skilningi frá Suður-Afríku heldur en hún hefur nokkurn tíma upplifað hérna heima. Þau tóku þá ákvörðun um að láta reyna á meðferð í Blönduhlíð, en meðferðin í Suður-Afríku er níu mánuðir og hafa þau ekki útilokað þann valkost, þrátt fyrir að úrræðið kosti töluvert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert