Fórnarlambið í meintu manndrápsmáli sem lögregla hefur til rannsóknar var karlmaður á sjötugsaldri og íbúi í Þorlákshöfn. Þetta herma heimildir mbl.is.
Samkvæmt tilkynningu lögreglu var maðurinn enn á lífi þegar viðbragðsaðilar komu að manninum á leiksvæði í Gufunesi.
Jón Gunnar Þórhallsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, fer með rannsókn málsins. Hann vildi ekki staðfesta þetta við mbl.is og sagði rannsókn skammt á veg komna.
„Það er heilmikil vinna í gangi við skýrslutökur og upplýsingaöflun. Við njótum liðsinnis lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í því. Rannsóknin er það skammt á veg komin að við erum enn að fá yfirsýn,“ segir Jón Gunnar.
Fram kom í tilkynningu frá lögreglu í morgun að málið hefði hafist þegar tilkynning barst skömmu fyrir miðnætti í fyrrakvöld um manninn.
Samkvæmt heimildum mbl.is fór maðurinn upp í bíl og stöðvaði lögregla í kjölfarið fjölda bifreiða í Þrengslunum í viðleitni sinni til að hafa uppi á honum. Auk þess var mikill viðbúnaður í Þorlákshöfn.
„Það var heilmikil vinna í gangi þessa nótt. Bifreiðar voru stöðvaðar og kyrrstæð lögregbifreið notuð einnig,“ segir Jón Gunnar.