Í greinasafninu Fléttur VII: Hinsegin Ísland í alþjóðlegu samhengi er greinin Að lenda í þögninni: Hinseginleiki og óríentalismi í Taílandsþríleik Megasar eftir Þorstein Vilhjálmsson. Í viðtali í Dagmálum kemur fram að í greininni er Þorsteinn ekki að fjalla manninn Magnús Þór Jónsson, heldur um Megas, birtingarmynd listamannsins, og viðtökur Taílandsþríleiksins, en þar er vísað í plöturnar Loftmynd og Höfuðlausnir og hlut Megasar í plötunni Bláir draumar, sem hann gerði með Bubba Morthens, en allar komu þær út á árunum 1987 og 1988.
Í greiningunni beitir Þorsteinn hugtökum eins og austurlandahyggju eða órítentalisma, og hinseginleika, en hann segist þó ekki nota síðastnefnda hugtakið á verufræðilegan hátt. „Það er mjög mikilvægt að átta sig á því að í fræðum, alla vega innan hinsegin fræðanna, eru til tvær mismunandi skilgreiningar á orðinu hinsegin, Annars vegar er sú skilgreining sem er líka notuð í almennri orðræðu þar sem hinsegin er regnhlífarhugtak yfir ákveðinn sjálfsmyndarhugtök eins og hommi, lesbía, tvíkynhneigður og svo framvegis, sjálfsmyndarhugtök sem skilgreinast í andstöðu við gagnkynhneigðarhyggju.
Innan fræðanna, og þá sérstaklega innan hinsegin fræðanna, hefur risið upp ákveðin önnur leið til að nota orðið hinsegin sem er ekki verufræðilegt, það er það lýsir ekki, svarar ekki hvað er x heldur snýst það frekar um ferilinn, það hvernig hlutirnir virka. Hinsegin í þessari merkingu er sem sagt sú aðferðafræði til að horfa öðruvísi á hlutina. Þegar þú horfir hinsegin á hlutina ertu að reyna að sjá mörkin milli hins eðlilega og hins óeðlilega, milli þess sem er hinsegin, því sem ýtt er úr vegi til að búa til flokk hins eðlilega. Þetta er krítískt greiningarhugtak, ekki verufræðilegt hugtak. Það svarar ekki spurningunni ég er heldur: Hvernig gerðist þetta? Hvernig var þetta? Af hverju telst þetta eðlilegt og hitt óeðlilegt?
Spurningin um hvort hinn raunveruleg maður, Magnús Þór Jónsson, sé hinsegin eða ekki í fyrri merkingunni, hinni verufræðilegu, er eitthvað sem ég hef engan áhuga á og er ekki tekið fyrir en hins vegar þá lít ég svo á að Taílandsþríleikurinn sé hinsegin list, list sem ögrar og opinberar hvernig við skilgreinum hið venjulega, hið eðlilega.“