„Húsnæðið fyrst og svo allt hitt,“ segir Guðbjörg Eyjólfsdóttir. Hún var um síðustu helgi kjörin formaður Járngerðar, hollvinasamstaka uppbyggingar og framtíðar Grindavíkur.
Nokkur aðdragandi var að stofnun samtakanna en það fólk sem yfirgefa þurfti bæinn sinn fyrir hálfu öðru ári hefur þótt vanta sameiginlegan vettvang til að vinna að sínum hagsmunamálum. Nú er slíkt félag komið og starf þess hafið. Í forystu eru fimm konur og einhvern tíma hefði þetta verið kölluð valkyrjustjórn!
Samkvæmt lögum sem Alþingi setti tekur Þórkatla – fasteignafélag Grindavíkur yfir íbúðarhúsnæði í bænum og greiðir út 95% af brunabótavirði. Þetta er lausn sem talin er geta náð til um 1.000 fasteigna. Með framangreindri útfærslu hefur verið gengið frá kaupum Þórkötlu á alls 939 eignum. Þarna hafa stjórnvöld komið til móts við íbúa, sem með útborgun fyrir sína fyrri eign hafa möguleika til að skapa sér framtíð á nýjum stað; sbr. að til dæmis Reykjanesbær, Vogar á Vatnsleysuströnd, Álftanes, Smárinn í Kópavogi, Þorlákshöfn og Selfoss eru nú heimabæir margra Grindvíkinga.
Í samningum um kaup Þórkötlu á eignum í Grindavík geta verið ákvæði um forleigu- eða forkaupsrétt fyrrverandi eigenda, vilji þeir snúa aftur í fyllingu tímans. Á þetta hefur enn ekki reynt. Þá er enn hætta á eldgosum á Reykjanesskaga þó að jarðvísindamenn telji líklegt að umbrotum ljúki senn.
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag