Karlmaðurinn sem fannst snemma í gærmorgun í Gufunesi í Reykjavík var enn á lífi þegar viðbragðsaðilar komu á vettvang.
Hann var þungt haldinn og lést skömmu eftir komu á slysadeild.
Átta hafa verið handtekin vegna rannsóknar á andláti hans sem beinist að meintri frelsissviptingu, fjárkúgun og manndrápi. Þrír hafa verið látnir lausir.
Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglunnar á Suðurlandi sem fer með rannsókn málsins.
Lögreglu barst tilkynning skömmu fyrir miðnætti í fyrrakvöld um manninn en óttast var að hann hefði yfirgefið heimili sitt í Þorlákshöfn fyrr um kvöldið.
Lögregla hóf þegar eftirgrennslan og grunaði snemma að maðurinn hefði verið frelsissviptur.
Maðurinn fannst snemma í gærmorgun við göngustíg í Gufunesi.
Lögregluembættin á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Vesturlandi auk sérsveitar ríkislögreglustjóra hafa komið að rannsókninni, sem eins og fyrr segir er á forræði embættisins á Suðurlandi.